N1-deildin: Frábær sigur á Val

N1-deildin: Frábær sigur á Val

FH vann frábæran sigur gegn Valsmönnum á fimmtudag, 30-25. Pálmar Pétursson kom í markið undir lokin og einfaldlega lokaði rammanum sem hjálpaði mjög mikið til.

FH-ingar voru ávallt skrefi á undan í fyrri hálfleiknum og náðu fjögurra marka forystu þegar um þriðjungur var búinn af fyrri hálfleik. Valsmenn voru þá tveimur færri og okkar menn gengu á lagið. FH hélt svo þessari forystu þangað til lítið var eftir af fyrri hálfleik þegar Valsmenn jöfnuðu metin, en Ólafur Guðmundsson skoraði rétt áður en bjallan glumdi í Krikanum. 15-14 í hálfleik og FH-ingarnir í Krikanum fóru brosandi að ná sér í kaffi.

Okkar menn héldu áfram frumkvæðinu í síðari hálfleik og voru yfirleitt með eins til tveggja marka forystu. Þegar um tíu mínútur voru eftir byrjuðu Valsmenn alveg að anda ofan í hálsmálið á FH-ingum og voru menn orðnir frekar stressaðir í stúkunni. Eitthvað var um mistök á báða bóga, en Pálmar Pétursson kom svo í FH-markið og lokaði rammanum. Hann varði hvert skotið á fætur öðru og það frábærlega! Lokatölur urðu eins og fyrr segir 30-25.

Frábær sigur og enn einn sigurinn hjá strákunum. Næsti leikurinn er á mánudag gegn Selfossi fyrir austan og hvetjum við fólk til að leggja leið sína norður. Næsti heimaleikur er svo Hafnarfjarðaslagur gegn Haukum, en hann er næsta fimmtudag. Meira um þann leik síðar!

Aðrar fréttir