Nær allir leikmenn uppaldir í FH!

Nær allir leikmenn uppaldir í FH!

Í byrjunarliði FH gegn Stjörnunni í Pepsideildinni voru 9 af 11 leikmönnum uppaldir FH-ingar. Þeir Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Hjörtur Logi Valgarðsson,
Pétur Viðarsson, Davíð Þór Viðarsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Björn
Daníel Sverrisson, Matthías Vilhjálmsson og Atli Guðnason. Aðeins
Dalvíkingurinn Atli Viðar Björnsson og Daninn Tommy Nielsen eru
annarsstaðar frá þó svo að þeir hafi verið mörg ár í Fimleikafélaginu
og séu miklir og góðir FH-ingar. Reyndar má taka það fram að Matthías Vilhjálmsson er Ísfirðingur en hann kom til FH 16 ára gamall og verður því að teljast með.

Hjá meistaraflokki kvenna er sömu sögu að segja. 10 af 11
byrjunarliðsmönnum í opnunarleik Íslandsmótsins gegn Draupni eru
uppaldir FH-ingar. Birna Berg Haraldsdóttir, Guðrún Sveinsdóttir,
Berglind “Bella” Arnardóttir, Sara Atladóttir, Rakel Birna
Þorsteinsdóttir, Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir, Halla Marinósdóttir,
Guðrún Björg Eggertsdóttir, Alma Gyða Huntingdton-Williams, Sigrún Ella
Einarsdóttir numu allar sína fótamennt á iðgrænum völlum Kaplakrika.
Aðeins Grundfirðingurinn Jóhanna Steinþóra Gústafsdóttir er ekki
uppalinn í FH en hún lærði að sparka bolta við rætur Kirkjufells.Allir
varamenn voru uppaldir FH-ingar.  Þess má geta að meginþorri liðs FH
eru stúlkur sem eru rétt skriðnar úr grunnskóla. Aðeins tveir leikmenn
eru yfir tvítugt þær “Bella” Arnardóttir og lögfræðingurinn knái Guðrún
Sveinsdóttir sem ber fyrirliðabandið í liðinu.

Samtals gerir þetta því 19 af 22 leikmönnum í byrjunarliðum FH eru
uppaldir FH-ingar eða nánast 90 af hundraði. Þetta eru uppörvandi
fréttir fyrir unga knattspyrnumenn í FH því reynslan sýnir svart á
hvítu að  ungir leikmenn fá tæifæri í FH.

En þetta er ekki aðeins í fótboltanum. Handboltalið félagsins eru að
mestu leyti skipuð ungum og uppöldum leikmönnum. Ekki þarf heldur að
fjölyrða um það mikla starf sem hefur verið unnið með frjálsíþróttamenn
í FH sem hafa haldið merki félagsins hátt á lofti um árabil. Þar er
nánast hver einasti kjaftur sem hefur tætt upp tartanið í Krikanum eða
fleygt spjóti, kúlu, sleggju eða kringlu undir handleiðslu Eggerts
Bogasonar og fleirri góðra þjálfara.

Aðrar fréttir