Naumt tap stelpnanna okkar í toppslagnum

Stelpurnar okkar máttu sætta sig við aðeins annað tap vetrarins á föstudagskvöld, er þær sóttu Fram U heim í Safamýri í sannkölluðum toppslag Grill 66 deildarinnar.

FH-liðið varð fyrir miklu áfalli strax í byrjun leiks þegar Sylvía Björt Blöndal, einn atkvæðamesti leikmaður liðsins í vetur, varð fyrir meiðslum á hné. Lenti hún illa eftir að hafa skorað fyrsta mark leiksins, og kom ekki meira við sögu í leiknum. Við óskum Sylvíu góðs bata, og vonum að ekki sé um alvarleg meiðsli að ræða.

Stelpurnar virkuðu slegnar út af laginu í kjölfarið, og var það topplið Framara sem var með yfirhöndina lengst af í fyrri hálfleik. FH-liðið var þó alla jafna ekki langt undan. Britney Cots steig upp svo um munaði og spilaði vel sóknarlega – raunar svo vel, að Framliðið sá sig knúið til að taka hana úr umferð. Það herbragð virkaði vel. Sú truflun leiddi til tapaðra bolta hjá FH-liðinu, sem reyndust því dýrkeyptir. Framarar fóru til hálfleiks með sitt stærsta forskot í leiknum, 17-13.

Britney steig vel upp á föstudagskvöld / Mynd: Brynja T.

Í síðari hálfleik reyndu stelpurnar allt hvað þær gátu til að snúa leiknum sér í vil, og gáfust þær aldrei upp. Unnu þær þann hálfleik, en það dugði ekki til. Topplið Framara, sem enn hefur ekki tapað stigi í deildinni, stóð uppi sem sigurvegari með tveggja marka mun, 28-26. Eru stelpurnar okkar enn í 2. sæti deildarinnar, 5 stigum á eftir Fram en stigi á undan Selfyssingum.

Markahæst í liði FH að þessu sinni var Britney Cots, en hún skoraði 6 mörk. Þær Embla Jónsdóttir, Fanney Þóra Þórsdóttir og Ragnheiður Tómasdóttir voru allar skammt undan með 5 mörk hver.

Næsti leikur stelpnanna okkar er á sunnudaginn næstkomandi, 19. janúar, en þá taka þær á móti góðu liði Vals U í Kaplakrika.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Britney Cots 6, Embla Jónsdóttir 5, Fanney Þóra Þórsdóttir 5, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Emilía Ósk Steinarsdóttir 3, Andrea Valdimarsdóttir 1 Sylvía Björt Blöndal 1.

Aðrar fréttir