Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar

Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar

 

 

Í fyrri hálfleik var jafnt á nánast öllum tölum og í hálfleik var staðan 16-16. Sóknarleikurinn var í góðu lagi hjá FH en vörn og markvarsla ekki nægilega góð.

HK menn byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu 2-3 marka forskoti. Þegar um 10-15 mín. voru eftir leiddu HK menn 23-22 en FH náði þá góðum kafla og komust í 25-23. HK jafnaði svo 27-27 en FH-ingar léku fantagóða vörn á lokamínútunum og unnu 30-27 og fögnuðu vel í leikslok.

Frammistaða Magnúsar Sigmundssonar í seinni hálfleik skipti sköpum en annars fannst mér allt FH-liðið leika vel. Daníel Berg dró vagninn í sókninni og er nú loks að sýna FH-ingum af hverju hann er álitið mikið efni. Hann skoraði fjölmörg mörk í öllum regnbogans litum. Þeir félagar úr Norðurbænum, Sigursteinn Arndal og Pálmi Hlöðversson léku mjög vel í vörninni og fórnuðu sér algjörlega. FH-liðið er á góðri siglingu og barátta þeirra skilaði sér til áhorfenda sem studdu vel við bakið á þeim. Þannig þarf það að vera.

Það verður að viðurkennast að gengi FH undanfarin ár hefur ekki verið samboðin félaginu sem í marga áratugi stóð nánast eitt og sér á tindinum.Nú finnst mér hins vegar sem það sé að verða straumhvörf.

Meistaraflokkur kvenna er með sterkt lið sem með smá viðbót gæti blandað sér í alvöru meistarabaráttu á næsta ári og meistaraflokkur karla hefur verið mjög vaxandi eftir áramót og lék í gær besta leik sem ég hef séð með þeim í vetur. Þeir sýndu að það er mikið stolt og hungur innra með þeim að sjá til þess að FH leiki í efstu deild næsta tímabil. Með sama áframhaldi klára FH-ingar þessa tvo leiki sem þeir eiga eftir gegn Víkingi/Fjölni og Haukum.

Þessu til viðbótar má nefna feykilega öfluga yngri flokka þar sem þjálfarar og stjórnarmenn vinna að metnaði og hugsjón og hefur skilað sér í því að FH er deildarmeistari í 5., 4. og 3. flokki karla. og þar er aragrúi af efnilegum leikmönnum. Framtíðin er því björt en það kemur ekki af sjálfu sér.

Eitt má samt gera betur. Það þarf virkilega að vinna í því að fá krakkana í yngri flokknum til að mæta á völlinn og mynda stemmningu. Hvaða flokkur er með besta klappliðið? Krakkarnir eiga að alast upp við það að mæta í Kaplakrika á heimaleiki bæði karla og kvennaliðsins og taka mömmu og pabba með!

Aðrar fréttir