Nú þurfa stelpurnar á stuðningi að halda

Lið FH í meistaraflokki kvenna í fótbolta hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er sumri í Pepsí deildinni og er einungis með þrjú stig fyrir síðasta leik fyrri umferðar. Liðið situr á botni deildarinnar og er í erfiðri stöðu en alls ekki ómögulegri. Á næstu vikum verða nokkrir mjög mikilvægir leikir hjá liðinu þar sem það þarf á öflugum stuðningi FH-inga að halda. Á morgun, þriðjudag 10. júlí, spila stelpurnar við Grindavík kl. 19:15 í Kaplakrika og þá hvetjum við alla FH-inga til þess að fjölmenna á völlinn og styðja stelpurnar til sigurs.

Við vitum að það býr mjög mikið í liðinu og stelpurnar eru staðráðnar í að sýna það og sanna. FH liðið er ungt að árum og í því er gríðarmikill efniviður og við erum sannfærð um að við erum með lið sem á erindi í Pepsí deildina. En öll lið þurfa á stuðningi að halda og nú leitum við til ykkar kæru FH-ingar um að þið skellið ykkur í Krikann á morgun kl. 19:15 og styðjið FH til sigurs á móti Grindavík. Stelpurnar eiga það svo sannarlega skilið.

 

Áfram FH

Við erum FH

Árni Rúnar Þorvaldsson,

formaður Kvennaráðs knd. FH

Aðrar fréttir