Nýr þjálfari ráðinn hjá FH

Nýr þjálfari ráðinn hjá FH

Meístaraflokksráð kvenna í knattspyrnu hjá FH hefur ráðið Jón Þór Brandsson sem þjálfara meistaraflokks og 2. flokks kvenna. Jón Þór er FH-ingum af góðu kunnur enda bæði leikið og þjálfað fyrir félagið í gegnum tíðina sem og sinnt sjúkraþjálfun leikmanna. Þjálfaraferill hans spannar um 25 ár og hefur af stærstum hluta tekið til þjálfun yngri flokka hjá FH, bæði í knattspyrnu og handknattleik. Þá hefur hann einnig þjálfað hjá öðrum félögum, m.a. hjá HK í Kópavogi , Hetti á Egilsstöðum ,Leikni Fáskrúðsfirði og skólaliði í Edinborg. Jón Þór er með UEFA–B þjálfaramenntun frá Knattspyrnusambandinu auk þess sem hann hefur sótt námskeið hjá ÍSÍ og HSÍ.
Jón Þór hefur starfað sem sjúkraþjálfari frá 1988 og hefur lengst af unnið við endurhæfingu hjá Sjúkraþjálfaranum í Hafnarfirði.

Iðkendafjöldi stúlkna og kvenna í knattspyrnu hjá FH er um 300. Metnaður og áhugi þeirra hefur verið mikill og árangurinn eftir því jafnt heima sem heiman. Nú eigum við bikarmeistara í 3 flokki og íslandsmeistara í 4 flokki, auk þess sem að yngri flokkar hafa oftar en ekki raðað sér í verðlaunasæti á stúlkna- og hnátumótum.

Stjórn FH er stolt af stelpunum sínum og leggur mikla áherslu á að skapa þeim umgjörð og aðbúnað til knattspyrnuiðkunar sem er til fyrirmyndar og eins og best verður á kosið hér á landi. Eitt mikilvægasta atriðið í þessu sambandi er að hafa ávallt yfir að ráða færustu þjálfurum sem vinna þétt saman og af jákvæðni. Við bjóðum nýjan þjálfara velkominn í hóp þeirra Grétu, Svavars, Þórarins, Kára og Davíðs. Um leið og við óskum Jóni Þór velfarnaðar í starfi þökkum við fráfarandi þjálfara Orra Þórðarsyni vel unnin störf á árinu.

Meistaraflokksráð kvenna FH
Bjarni Þór Gunnlaugsson
Guðrún Þorkelsdóttir
Helga Friðriksdóttir
Margrét Brandsdóttir
Margrét Jóhannsdóttir

Aðrar fréttir