“Ó hve römm er sú taug”

Kæru velunnarar

Nú er árið senn á enda. Ár sem hefur tekið þónokkuð á fyrir okkur FH-inga karlamegin en veitti okkur mikla gleði kvennamegin þar sem við tryggðum okkur sæti í efstu deild með glæsibrag. Þar setjum við stefnuna hátt, ætlum að byrja á því að ná jafnvægi sem efstu deildar lið og svo í framhaldinu, á næstu þremur árum, að vera með lið sem getur gert sig gildandi í toppbaráttu í efstu deild. Það verða einhverjar breytingar á kvennaliðinu, við höfum nú þegar náð í nokkra mjög spennandi leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér og ættu að smellpassa inn í hugmyndafræði þjálfaranna. Við viljum vera með orkumikið lið sem er óhrætt við að sækja til sigurs sama hver andstæðingurinn er!

 

Karlamegin var tímabilið mikil vonbrigði og þrátt fyrir léttinn að ná að halda sér uppi þá eru, að ég held, allir sammála um það að við þurfum að gefa í, við höfum engan áhuga á því að lenda aftur í þessari stöðu. Það hafa átt sér stað þónokkrar breytingar á leikmannahópnum, farnir eru nokkrir af reynslumeiri leikmönnum liðsins, við erum komnir með nýjan markmann í Sindra Kristni Ólafssyni og munum eflaust bæta við okkur fleiri leikmönnum nú í vetur. Held að flestir geti verið sammála um það að jafnvægið á leikmannahóp liðsins var ekki nógu gott síðastliðið sumar og þær breytingar sem hafa verið gerðar ríma við það.

Heimir Guðjónsson er kominn heim og er fullur af eldmóði og tilbúinn að stýra þessu risastóra verkefni sem við eigum fyrir höndum ásamt þjálfarateymi sínu.

 

FH er stærsta og flottasta félag á landinu. 2023 er risastórt ár fyrir okkur. Það er árið sem kvennaliðið okkar ætlar að “stabílisera” sig sem efstu deildar lið og það er árið sem karlaliðið okkar ætlar að hefja sína vegferð aftur á topp íslenskrar knattspyrnu.

„Ó hve römm er sú taug“ styrkurinn

Mig langar síðan að vekja athygli á því að 1. nóvember 2021 voru samþykkt ný lög á Alþingi sem heimila einstaklingum að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi.

 

Dæmi 1: Af tekjum yfir 1.040.106 kr. á mánuði þarf að borga 46,25% skatt. Einstaklingur í hæsta skattþrepi sem styrkir Knattspyrnudeild FH um 350 þúsund krónur fær endurgreiðslu frá skattinum upp á 161.875 kr.

Nettó styrkur fyrir einstaklinginn er því 188.125 krónur

 

Dæmi 2: Af tekjum á milli 370.483 kr. – 1.040.106 kr. á mánuði þarf að borga 37,95% skatt. Einstaklingur í milli skattþrepi sem styrkir Knattspyrnudeild FH um 200.000 krónur fær endurgreiðslu frá skattinum upp á 75.900 kr.

Nettó styrkur fyrir einstaklinginn er því 124.100 krónur.

 

Eins og ég skrifaði hér að ofan þá er hámarkið á frádráttarbærum styrk 350 þúsund krónur en lágmarkið er 10 þúsund krónur.

 

Við höfum einnig ákveðið að þeir aðilar sem vilja taka þátt í þessu með okkur fái að kaupa árskort hjá okkur á 5.000 krónur, möguleikarnir eru eftirfarandi:

 

350.000 kr. styrkur: Platínum kortið – virði: 162.000 kr.

 

200.000 kr. – 349.000 kr. styrkur: Gull kortið – virði: 108.000 kr.

 

100.000 kr. – 199.000 kr. styrkur: Silfur kortið – virði: 48.500 kr.

 

50.000 kr. – 99.000 kr. styrkur: Svarta kortið – virði 27.000 kr.

 

Framkvæmd:

Þú millifærir upphæð að eigin vali, lágmark 10.000 krónur, inn á Knattspyrnudeild FH; 140-26-7585 – kt: 410687-1359.

 

Síðan sendir þú tölvupóst á elsa@fh.is þar sem fram þurfa að koma eftirfarandi upplýsingar:

 

  • Nafn greiðanda
  • Kennitala greiðanda
  • Fjárhæð framlags
  • Greiðsludagur

 

Við sendum síðan reikning tilbaka með nafni og kennitölu greiðanda ásamt greiddu framlagi. Við komum síðan upplýsingum um framlagið til skattsins þannig að framlagið forskráist á skattframtalið 2023 sem ætti að opna fyrir skil þann 1. mars 2023.

 

Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í þessu með okkur en óskar eftir frekari upplýsingum þá getur þú sent póst á mig, david@fh.is.

Aðrar fréttir