Óðinn Björn kastaði 57,88 m og bætti í í kringlukasti.

Óðinn Björn kastaði 57,88 m og bætti í í kringlukasti.

Óðinn Björn kastaði 57,88m í gærkvöldi
Óðinn Björn Þorsteinsson, FH, bætti sinn persónulega árangur í kringlukasti á 1. Powerademóti FH, sem fram fór í Kaplakrika í gærkvöldi, þegar hann kastaði 57,88 metra. Þetta er önnur keppni Óðins í kringukasti á þessu ári, en hann átti best 57,46 metra frá sl. ári og lofar þessi árangur Óðins góðu fyrir framhaldið, en hann hefur lagt áherslu á kúluvarpið að undanförnu. Óðinn Björn bætti einnig sinn besta árangur í kúluvarpi utanhúss, varpaði 16,83 metra, en hann á best 18,51m innanhúss.

Á mótinu í gær náði Bergur Ingi Pétursson, FH, sínum næst besta árangri í sleggjukasti, en hann kastaði 64,19 metra. Bergur á best 64,80 metra, en hann hefur kastað yfir 64 metra á þremur af fjórum mótum, sem hann hefur tekið þátt í á þessu ári og það virðist því aðeins tímaspursmál hvenær hann nær að bæta Íslandsmet Guðmundar Karlssonar í greininni, en það er 66,28 metrar. Bergur hefur dvalið í æfingabúðum í Kuortane í Finnlandi í vetur á styrk frá IAAF og fer hann aftur þangað í næstu viku og verður fram í lok júní.

Sigurbjörg Ólafsdóttir, Breiðabliki, hljóp 100 m á 12,26 sek. í sínu fyrsta hlaupi utanhúss á þessu ári og er því greinilega tilbúin fyrir keppni á Smáþjóðaleikunum, sem hefjast eftir 10 daga á Andorra.

Þá hljóp Guðmundur Daði Kristjánsson úr Aftureldingu 200 m á 22,54 sek. í aðeins of miklum meðvindi (+2.3m/s), en hann á best 22,79 sek. frá sl. ári. Guðmundur Daði hefur dvalið í Kína síðan í febrúar við æfingar og nám.

Önnur úrslit frá mótinu er að finna í mótaforriti FRÍ.

Aðrar fréttir