Óli Guðm, í uppskurð – Óli Gúst í hópnum í kvöld

Óli Guðm, í uppskurð – Óli Gúst í hópnum í kvöld

    


Það hefur mikið verið spurst fyrir um stöðuna á stórskyttunum okkar og nöfnunum Ólafi Guðmundssyni og Ólafi Gústafssyni að undanförnu.  Fólk hefur verið að spá í hvort og þá hvenær við sjáum pilta á fjölunum það sem eftir lifir leiktíðar.

Staðan á drengjunum er þannig í dag að Óli Guðmunds fór í uppskurð mánudaginn 9. febrúar s.l. vegna slæmra liðbandameiðsla í ökkla.  Það er skemmst frá því að segja að aðgerðin tókst eins og best verður á kosið.  Ekki þurfti að setja styrktarplötur á liðbandið en þó er ljóst að Óli leikur ekki meira með FH-liðinu í vetur því hann þarf að vera 3 vikur í gifsi og 4 vikur í göngugifsi.  En hann ætti þó að öllu eðlilegu að verða klár í slaginn með U-19 landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramóti í júlí í sumar. 

Óli Gúst hefur ekkert leikið í vetur vegna meiðsla í hné, en hann fékk það sem kallast “Jumpers knee” undir lok síðustu leiktíðar.  Í fyrstu var haldið að góð endurhæfing yfir sumartímann myndi duga til að ná bata en strax á fyrstu æfingu síðla sumars var ljóst að svo var ekki.  Kappinn fór því í uppskurð sem tókst afar vel og hefur verið í stífri endurhæfingu síðan sem hefur gengið mjög vel.  Óli hefur verið að auka álagið nokkuð undanfarnar vikur og hefur æft með liðinu alla þessa viku.

Og gleðitíðindin eru þau að kappinn mun verða á leikskýrslu í kvöld í stórleiknum á móti HK.  Ljóst er þó að varlega verður farið með piltinn og honum komið af stað í rólegheitum.  En gott að vita til þess að strákur sé kominn á ferðina og vonandi að við fáum fljótlega að sjá það sem við vitum að býr í honum.

Áfram FH

Aðrar fréttir