Ömurleg frammistaða gegn Gróttu + Myndir

Ömurleg frammistaða gegn Gróttu + Myndir

Margir héldu að botninum væri náð þegar FH tapaði fyrir Stjörnunni í Krikanum á mánudaginn var. Þar á meðal var undirritaður. En svo var alls ekki, því í kvöld rótburstuðu Gróttumenn FH-inga í Kaplakrika í annað skiptið í vetur.

Fyrri hálfleikur
Fyrri hálfleikur var ömurlegur. Punktur. FH-ingar voru ömurlegir, varnarlega og sóknarlega, og eftir 10 marka leik var staðan 8-0 Gróttu í vil. Segir allt sem segja þarf.

Lið FH hóf leik á 15. mínútu og náðu þá að minnka muninn umtalsvert og á 25. mínútu var munurinn „aðeins“ 5 mörk, 8-13. Munurinn var 11-16 í hálfleik, Gróttu í vil. Þá höfðu tveir leikmenn skorað mörk FH, það voru þeir Bjarni Fritzson og Ólafur Gústafsson; Bjarni með 8 mörk en Ólafur með 3.


Ólafur Gústafsson – Einn af tveimur leikmönnum FH-liðsins sem voru
með lífsmarki í kvöld.

Seinni hálfleikur
FH-ingar mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn í 2 mörk á fyrstu 10 mínútunum, 17-19. Á þessum tímapunkti litu þeir virkilega vel út, vörnin var sterk og sóknarleikurinn ágætur. En þá var leiknum lokið, Gróttumenn gáfu í og unnu að lokum sanngjarnan 7 marka sigur, 23-30.

Frammistaða FH-inga í leiknum var móðgun, og þá sérstaklega fyrsta korterið. Liðsmenn FH mættu ekki til leiks og létu fríska og baráttuglaða Gróttumenn gjörsamlega keyra yfir sig, staðan 8-0 eftir 10 mínútur segir alla söguna. Maður hefði haldið að tap liðsins gegn Stjörnunni á mánudaginn hefði verið smá spark í rassinn fyrir FH-inga en svo var ekki, hörmungarnar héldu áfram í kvöld. Vissulega vantaði Ólaf Guðmundsson í leikmannahóp FH-liðsins en ég neita að trúa því að fjarvera hans hafi þetta mikið áhrif á lið FH. Ekki skal gleyma því að handbolti er liðsíþrótt, ekki íþrótt byggð upp á einstaklingsframtaki.

Markahæstur FH-inga í kvöld var hinn sístöðugi Bjarni Fritzson, sem skoraði 11 mörk. Ólafur Gústafsson átti einnig flottan leik, en hann skoraði 7 mörk. Aðrir leikmenn liðsins komust ekki yfir 2ja marka múrinn.

FH-ingar eru þar með komnir niður í 5. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Fram í Safamýrinni  miðvikudaginn næsta. Ætli strákarnir að ná stigi út úr þeim leik þurfa þeir að gyrða sig rækilega í brók, enda Framarar á miklu skriði. Meira um Fram-leikinn síðar.

Myndir frá Jóa Long
Félagi okkar, hann Jóhannes Long, senti okkur myndir frá leiknum. Við þökkum Jóa kærlega fyrir.


Óli Gúst að setj’ann.


Frakklandsfarinn Jón Heiðar í baráttunni


Benni að sækja úr horninu


Bjarni Fritzson var öflugur í kvöld, rétt eins og Maggi Sigmunds
í marki Gróttu.


FH-ingar voru ekki par-sáttir með frammistöðu liðsins
og létu þá óspart heyra það.


Jóhann Skagfjörð var forviða – eins og við öll.

Aðrar fréttir