Orðsending frá mfl FH

Orðsending frá mfl FH

Kæru FH-ingar.

 

Að gefnu tilefni viljum við, leikmenn meistaraflokks FH í handbolta, þakka ykkur öllum fyrir frábæran stuðning það sem af er vetri. Ekki bara áhorfendum heldur öllum þeim sem lagt hafa á sig ómælda vinnu við að gera umhverfi handboltans í FH jafn glæsilegt og það er í dag.

Laugardagurinn síðasti var hreint út sagt frábær þó svo að menn hafi ekki beint verið sáttir við jafnteflið. Ég held ég geti leyft mér að fullyrða að það séu ár og aldir síðan jafn margir áhorfendur hafi mætt á sjónvarpsleik í íslenskum handknattleik og var nú á laugardaginn og 98% af því fólki voru FH-ingar. En ekki hvað?

 

Hver klúbbur er aldrei stærri eða betri en fólkið sem að honum kemur hverju sinni.

Persónulega hef ég verið að fá þónokkurn slatta af auka FH hjartaslögum upp á síðkastið, gæsahúð og allan pakkann. Við erum alveg hrikalega stoltir og montnir með fólkið okkar og klúbbinn. Þetta er fimleikafélagið eins og það á að sér að vera.

 

Leikmenn halda sér nú við efnið og taka einn leik fyrir í einu. Við erum með ungt og bráð efnilegt lið í höndunum sem verið er að móta og slípa fram til komandi ára. Framtíðin er björt.

Næsti leikur er fimmtudaginn 16.okt þegar við sækjum Framara heim í Safamýrina. Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá sem flesta FH-inga leggja leið sína á leikinn og styðja við bakið á liðinu. Við þurfum á ykkur að halda.

 

Svo að lokum.

Það eru forréttindi fyrir okkur öll að vera FH-ingar.

 

Takk fyrir okkur.

 

Fyrir hönd mfl. FH.

Hjörtur Hinriksson, fyrirliði.

 

Áfram FH.

Aðrar fréttir