Örn Ingi: „Þvílík upplifun!“

Örn Ingi: „Þvílík upplifun!“

FH.is tók nýjan liðsmann meistaraflokks karla tali en það er Örn Ingi Bjarkason úr kjúklingabænum Mosfellsbæ. Örn Ingi gekk í raðir FH frá Aftureldingu í lok október og stefnir hann hátt með spútnikliði FH.

Hann segir stemmninguna með að vera kominn í FH mjög góða en af hverju ákvað hann að söðla um og ganga til liðs við Fimleikafélagið frá uppeldisfélaginu Aftureldingu? „Það var bæði vegna erfiðleika hjá Aftureldingu og svo sá ég mikinn uppgang hjá FH þar sem mikið er um efnilega leikmenn og mér fannst gott tækifæri að reyna að bætast í þann hóp.“

Örn Ingi í leik gegn AkureyriNú lékstu þinn fyrsta leik á dögunum fyrir FH og það engan smáleik. Voru fiðrildi í maganum þegar þú steigst á fjalir Kaplakrika frammi fyrir rúmlega 2000 áhorfendur á móti erkifjendunum í Haukum? „Já, en fór strax þegar maður fékk að fara inná. Og þvílík upplifun að hlaupa inná völlinn fyrir framan allan þennan fjölda,“ sagði Örn Ingi.

Mikil vinna hefur verið í gangi bakvið tjöldin til að gera umgjörðina í kringum liðið og okkar frábæru svarthvítu áhorfendur betri. Örn Ingi hefur ekki farið varhluta af því. „Umgjörðin og allir stuðningsmennirnir eru í þvílíkum klassa. Allt ekkert smá professional ef maður slettir aðeins.“

Það er ekki alltaf auðvelt að aðlaga sig að nýju liði, samherjum og leikkerfum. Hvernig hefur það gengið hingað til? „Þetta er allt að koma og ég mun koma mér alltaf meira og meira inn í leik liðsins,“ sagði Örn Ingi sem segist stefna sem lengst í framtíðinni í handboltanum, gott markmið.

Óhjákvæmilegt er að nefna föður Arnar Inga en það er enginn annar en Bjarki Sigurðsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í handknattleik. Auk þess að hafa erft handknattleikshæfileikana frá föður sínum virðist því miður sem svo að hann hafi erft hnén frá honum líka. Örn Ingi sleit krossband í hné fyrir nokkrum misserum, meiðsli sem karl faðir hans þekkir mætavel. Við spurðum Örn Inga hvort að hnémeiðslin væru að plaga hann enn þann dag í dag. „Tja, ég er nú ekki orðinn 100% alveg en ég er alltaf að styrkja hnéð og allan líkamann þannig að þetta lagast fljótlega.“Elvar Erlingsson

Auk nýrra samherja er Örn nú undir handleiðslu nýs þjálfara og FH.is lék forvitni á að vika hvort æfingarnar hjá Elvari þjálfara séu frábrugðnar því sem hann hafi áður kynnst. „Já, þær eru það og bara til hins betra. Ég finn fyrir miklu meira tempói á æfingum og meiri styrktaræfingar sem eru nauðsynlegar.“

Að lokum var hann spurður út í liðsfélagana, hver þeirra væri nú skrýtnastur? „Veistu, mér sýnist allir nokkuð góðir bara.“ Svo mörg voru þau orð.

FH.is þakkar Erni Inga fyrir spjallið og óskar honum góðs gengis í framtíðinni með FH um leið og við bjóðum hann hjartanlega velkominn í okkar frábæra félag.

Elvar Erlingsson

Aðrar fréttir