Óvænt tap í Safamýrinni

Óvænt tap í Safamýrinni

Í kvöld fóru FH-ingar í Safamýrina og léku gegn heimamönnum í Fram. Fyrir leikinn var FH í 2. sæti með 17 stig en Framarar sátu á botni deildarinnar með 3 stig, en þeir höfðu fyrir leikinn unnið einungis einn leik á tímabilinu.

Fyrri hálfleikur
FH-ingar byrjuðu fyrri hálfleikinn betur og stjórnuðu leiknum. Mest náðu FH-ingar 6 marka forskoti, 12-6, en leikurinn jafnaðist eftir það. Staðan í hálfleik var 18-16, FH í vil. Markahæstur FH-inga í fyrri hálfleik var Ólafur Guðmundsson með 5 mörk, en Bjarni Fritzson og Ólafur Gústafsson höfðu skorað 4 mörk. Markvarslan var hins vegar af skornum skammti, en markverðir FH vörðu samtals 4 skot í hálfleiknum.

Seinni hálfleikur
Liðin tvö voru stál í stál fyrsta korterið í seinni hálfleik. Framarar náðu þó aldrei forystunni en oftast voru FH-ingar með 1-2ja marka forskot. En síðustu 10 mínútur leiksins fór allt fjandans til. FH-ingar virkuðu máttlausir og Framarar náðu 2ja marka forskoti í fyrsta sinn í leiknum, 29-27. Strákarnir náðu sér aldrei eftir þetta og Framarar fóru að lokum með sigur af hólmi, 31-30.

Úrslit leiksins eru vægast sagt mikil vonbrigði. Strákarnir voru sigurstranglegri fyrir leik, enda í 2. sæti deildarinnar, og hefðu í ljósi þess átt að sýna meira en þeir gerðu í seinni hálfleik. Í kjölfari tapsins sitja FH-ingar í 3. sæti, stigi á eftir Akureyri sem að situr í 2. sætinu.

Enn er óljóst hvernig leikjum í 3. umferð verður raðað en það kemur í ljós von bráðar. Ætla ég rétt að vona að strákarnir girði sig ærlega í brók fyrir þá leiki, þ.e.a.s. ef þeir ætla sér áfram í titilbaráttu. Spili þeir eins og þeir gerðu síðasta korterið í þessum leik er deginum ljósara að möguleikar þeirra á titli er lítill.

Markahæstur FH-inga í leiknum var Bjarni Fritzson með 11 mörk. Daníel Andrésson átti fínan leik en hann varði 16 skot, megnið af þeim í seinni hálfleik.

Eins og áður sagði er óvíst hvenær næsti leikur verður leikinn, en það verður tilkynnt hér síðar.

Aðrar fréttir