Pistill frá Árna Stefáni

Kæri FH-ingur,

Laugardaginn 2. desember er komið að okkar stærsta verkefni á þessu tímabili – heimaleikur á móti stórliði Tatran Presov. Leikurinn sem sker úr um hvort við komumst alla leið í riðlakeppni EHF-keppninnar, sem yrði einstakt afrek.

Leiðin hingað hefur ekki verið auðveld. Að baki liggja mörg þúsund kílómetrar af ferðalögum, til Tékklands, til Rússlands (tvisvar!) og nú síðast til austurhluta Slóvakíu. Þessu hefur fylgt mikill og strangur undirbúningur, sem allir tengdir liðinu hafa þurft að leggja á sig. Sama hvort það er skipulag á ferðalögum, plötulagningar, sala á happadrættismiðum eða tyrfingar, þá hafa allir lagt hönd á plóg til að gera þetta Evrópuævintýri okkar að veruleika.

Og nú er einfaldlega komið að því. Síðasta prófraunin. LeikurINN. Úti töpuðum við með þremur mörkum, en eftir leik voru allir sammála um að við ættum fullt inni fyrir heimaleikinn. Það er ljóst að okkur dugar ekki bara að vinna, heldur þurfum við að gera það með fjórum mörkum. Og þar, kæri FH-ingur, kemur þú til sögunnar.

Þetta einfaldlega getum við ekki einir. Við þurfum þig í stúkuna með okkur. Klæddan í hvítt. Klappandi. Stappandi. Öskrandi. Við þurfum að fagna saman hverju marki, hverri vörn og hverri einustu markvörslu. Í sameiningu þurfum við að búa til meðbyr á fellibylsmælikvarða, sem hreinlega getur ekki annað en blásið okkur alla leið.

Kæri FH-ingur. Það verður rafmögnuð stemmning í Krikanum á laugardaginn. Við munum bókstaflega skilja allt sem við eigum eftir á parketinu, fyrir okkur sjálfa, fyrir þig og að sjálfsögðu fyrir félagið. Þetta verður vonandi ógleymanlegur dagur og okkur langar til að upplifa hann með þér.

Komdu og vertu með okkur. Við erum FH.

Aðrar fréttir