
Riðlakeppnin í húfi | Upphitun: FH – TATRAN Presov, laugardaginn 2. desember 2017 kl. 14:00
Gleðilega hátíð! Framundan, kæru FH-ingar, er einn stærsti Evrópuleikur félagsins í sögunni – og sá allra stærsti um langra hríð. Eftir ágætis úrslit í Slóvakíu um síðustu helgi eru möguleikar FH á sæti í riðlakeppni EHF-bikarsins sannarlega fyrir hendi. Til þess þurfa FH-ingar að eiga frábæran leik gegn feiknasterku liði Tatran Presov, sem kemur í heimsókn á laugardag. Það er því mikilvægt að hita aðeins upp fyrir átökin.
Strákarnir lögðu sig alla fram
Segja má með góðri samvisku að strákarnir hefðu ekki getað óskað sér betri leik milli Evrópuverkefna, en þann sem þeir fengu í fyrradag. Framarar mættu í heimsókn í Kaplakrika, og aðra viðureignina í röð kjöldrógu okkar menn Safamýrarpilta.
Fyrirfram var þetta eilítið flókið verkefni, að maður hélt. Í ljósi úrslita fyrri leiks þessara liða mátti búast við Frömurum bandbrjáluðum í Kaplakrika. Um er að ræða óútreiknanlegt lið – stemningslið sem getur veitt hverjum sem er keppni á góðum degi, en fellur vel niður þess á milli. Hvora hliðina fær maður að sjá í þetta sinn? Það er alltaf spurningin þegar Fram er annars vegar.
Að sama skapi er aldrei gott að spá fyrir um, hvernig lið mætir til leiks í deildarleik á milli Evrópuverkefna. Hvar er hausinn staddur?
FH-ingar svöruðu þeirri spurningu hratt og örugglega í fyrrakvöld. Yfirburðir strákanna okkar voru algjörir eiginlega frá upphafi, á 12. mínútu var forystan orðin 7 mörk og því eiginlega aldrei spurning frá því hvernig leikar myndu enda.

Framarar áttu erfitt uppdráttar gegn Ágústi Elí / Mynd: Jói Long
Ágúst Elí skellti hreinlega í lás í markinu, og eiginlega þannig að varla er hægt að tala um að hann hafi gert svo ,,á löngum köflum” – það var hreinlega bara lok, lok og læs. Hann varði heil 22 skot á einungis 44 mínútum, sem leiddi til þeirrar fullyrðingar þjálfara Framara í viðtali við Vísi eftir leik, að eina leið Framara til að leggja FH að velli væri að safna í púkkinn og kaupa Gústa – til þess eins að hann gæti ekki spilað á móti þeim.
Ekki hjálpaði það Frömurum að varnarleikur FH var til stakrar prýði, eins og yfirleitt hefur verið í vetur. Við fengum varin skot frá miðjublokkinni, sem bættust við hin fjölmörgu vörðu skot Ágústar, og þá var Arnar Freyr með nafna sinn Birki úr Fram-liðinu í gjörgæslu í fyrri hálfleik. Það er algjör lykill að sigri gegn Fram, því Arnar Birkir er hæfileikamaður mikill og langbesti sóknarmaður þeirra.
Safamýrarpiltar ætluðu sér greinilega að mæta ákveðnir út gegn okkar liði varnarlega, og gengu langt út í skyttur FH-liðsins. Það skapaði pláss fyrir Jóhann Karl á línunni, og slíkt lætur hann ekki bjóða sér tvisvar. Sóknarlínunni gekk vel að koma boltanum á Járnkarlinn, sem nýtti færin sín nærri því óaðfinnanlega – 10 mörk í 11 skotum segja allt sem segja þarf. Frábær leikur hjá Jóhanni, sem einnig spilaði góðan varnarleik með Ísak í miðjublokkinni.

Jóhann Karl var á eldi á línunni á miðvikudag/ Mynd: Jói Long
FH-liðið fór með 10 marka forskot inn í hálfleikinn. 22-12, og var sigur því til næst unninn. Halldóri Jóhanni gafst þá kærkomið tækifæri til að rótera liðinu, og var það svo að bekknum var falið það verkefni að klára leikinn – sem þeir gerðu með prýði. Gísli Þorgeir fór fyrir liðinu í síðari hálfleik með 7 mörk skoruð, en hann var með 10 alls og var markahæstur ásamt Jóhanni Karli.
Lokaniðurstaðan var 13 marka stórsigur FH-liðsins, 39-26, sem fer því með afar gott veganesti inn í leik helgarinnar.
Mörk FH: Jóhann Karl Reynisson 10, Gísli Þorgeir Kristjánsson 10, Einar Rafn Eiðsson 6/2, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Ásbjörn Friðriksson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1, Þorgeir Björnsson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 22, Birkir Fannar Bragason 6.
Evrópudeildin og Evrópubikarinn
Evrópudeildin í handbolta var stofnuð 1980 og hét þá IHF Cup. Vill það svo til, að FH var fyrsta íslenska liðið til að taka þátt. Þar sem að um nýja keppni var að ræða var gripið til þess ráðs að halda sérstakt mót utan um þátttökuréttinn, sem FH-ingar unnu með fullt hús stiga. Síðan þá hefur FH tekið þátt nokkrum sinnum og náði best þeim árangri að komast í átta liða úrslit 1989. Það var þó ekki besti árangur íslenskra liða á áratugnum, en Þróttur og Víkingur komust bæði í undanúrslit um miðjan áratuginn.
Árið 1993 var keppnin endurskýrð og fleiri íslenskum liðum tókst í kjölfarið að komast á seinni stig hennar. Ásvellingar fóru í undanúrslit 2001 og Stjarnan í átta liða úrslit 1997. Þá hafa HK og Valur bæði komist í þriðju umferð. Einnig verður að koma fram að árin 2006 og 2009 vann FH-ingurinn og silfurdrengurinn Logi Geirsson keppnina með Lemgo. Lemgo hefur unnið keppnina tvisvar, en þýsk lið hafa alls hampað titlinum 22 sinnum en lið frá öðrum löndum aðeins fjórtán sinnum. Síðustu tvö ár hefur bikarinn verið geymdur í Göppingen, en þeir piltar eru sigursælasta lið keppninnar með fjóra titla.
Árið 2012 rann EHF bikarinn saman við Evrópumót bikarhafa og úr varð EHF-Cup í núverandi mynd. Tekin var upp riðlakeppni í kjölfarið, en hingað til hefur engu Íslensku liði tekist að komast í þá keppni. Nú eru FH-ingar hins vegar einum fjögurra marka sigri frá því að skrifa sig á spjöld sögunnar með því að vera fyrst íslenskra liða til að komast þar inn.

Herra FH gulltryggði það einvígi sem nú stendur yfir / Mynd: Robert Grim
Þessi keppni hefur verið sannkallað ævintýri fyrir FH – á góðan og slæman hátt. Í byrjun september vann liðið Tékkana í Dukla Praha sannfærandi, samtals 61-52. Margir voru bölsýnir eftir að strákarnir drógust gegn liði Sankti Pétursborgar í annari umferð. Engu að síður varð svo úr að fyrri leikurinn, sem fram fór í Kaplakrika, vannst með fimm mörkum (32-27).
Stemningin var góð í seinni umferðinni – krefjandi leikur á erfiðum útivelli með vel trylltum áhorfendum. Rússarnir voru aðeins betri á heimavellinum en FH-ingar sýndu gífurlega baráttu og hleyptu Rússunum ekki of langt fram úr. Að lokum unnu Rússarnir með kunnuglegum tölum, 32-27. Hinn nú heimsfrægi finnski eftirlitsdómari tilkynnti í kjölfarið um framlengingu, sem allir voru sáttir við. Eftir framlenginguna var staðan 35-31 fyrir St. Pétursborg, sem þýddi að FH-ingar voru komnir áfram á einu marki.
Þá byrjaði bíóið fræga. Þegar Hafnfirðingar voru komnir heim barst þeim ótrúleg frétt, að leikurinn hefði verið framkvæmdur vitlaust og að Rússarnir ætluðu að kæra. Finninn hafði nefnilega ekki fengið skilaboð frá EHF um að það ætti að grípa til vítakeppni frekar en framlengingar. Sú kæra var samþykkt í nefnd og FH-ingum gert að fljúga aftur til Rússlands til að taka fimm eða svo víti. Fyrir utan smá vesen við að komast á staðinn (fyrir Einar Rafn og Jóhann Karl) þá gekk ferðin vel og voru liðsmenn nú tilbúnir að klára dæmið, 37 dögum eftir að fyrri leikurinn fór fram.
Að morgni sunnudagsins 12. nóvember skriðu FH-ingar og aðrir handboltaáhugamenn á fætur klukkan níu um morgun til að fylgjast með beinni útsendingu frá Sankti Pétursborg. Rússunum hafði tekist að smala ágætlega á leikinn og það var hávaði og læti í húsinu, en FH-ingar virkuðu sultuslakir í útsendingunni. Fyrsta víti FH-inga hafnaði í stöng en Ágúst gerði sér lítið fyrir og varði næstu tvö vítin. Þegar kom að síðasta skotinu var staðan 3-3. Ísak Rafnsson gekk á punktinn, á Íslandi hélt fólki niður í sér andanum.
Herra FH tók eitt feik skot, sendi markmanninn í vitlausa átt og dúndraði boltanum inn. Í Hafnarfirði hrópuðu menn siguröskur sem bliknuðu við hlið öskranna í leikmönnunum sjálfum, sem gerðu heiðarlega tilraun til að hlaupa Ísak niður og tóku svo sigurhring. Einu furðulegasta máli íslenskrar handboltasögu lokið með sigri réttlætisins og voru FH-ingar fyrir vikið tveimur leikjum gegn Tatran Presov frá því að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Leikmenn Tatran Presov réðu ekkert við Einar Rafn ytra / Mynd: Jói Long
Andstæðingurinn – drottnari slóvaska handboltans
Slóvaska handboltadeildin var stofnuð árið 1993 og er óhætt að segja að Tatran Presov hafi haft ákveðna yfirburði í henni. Árið 2003 fengu þeir aðaldolluna í hús í fyrsta sinn, og síðan þá hefur það gerst einu sinni að einhver annar hafi fengið að passa hana. Með öðrum orðum þá hafa þeir orðið meistarar ellefu sinnum á tólf árum, sem er nátturúlega bara fáranlegt hvar sem er. Árangur þeirra í bikarnum er reyndar ekki alveg jafn frábær, þann hafa þeir misst frá sér alveg tvisvar á þessum tíma.
Reynsla þeirra í Evrópu er, ef svo má segja, svakaleg. Fimm sinnum hafa þeir farið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, síðast í hitteðfyrra, og einu sinni hafa þeir komist upp úr henni (2005). Þeir duttu út í undan-og átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar á sínum tíma, og þegar Evrópubikarinn var ennþá til þá fóru þeir alla leið í undanúrslit eitt sinn.
Það var hins vegar varla að sjá á fyrri leik FH-liðsins við Tatran Presov, að þarna væru strákarnir að mæta ofjörlum sínum. Engan veginn. Tatran Presov er vel fjármagnað atvinnumannalið, yfirburðalið síns heimalands og eitt stærsta nafn handboltans í Austur-Evrópu – sé t.d. miðað við gengi þeirra í hinni sterku SEHA-deild, þar sem liðið er í 2. sæti á eftir núverandi Evrópumeisturum Vardar Skopje.
FH-liðið stóð jafnfætis Tatran Presov allan leikinn. Á köflum voru strákarnir yfir, og þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn. Hefði smá heppni verið í liði með gestunum úr Hafnarfirði hefðu leikar getað endað jafnir. En það fór sem fór, þriggja marka tap ytra er staðreynd (24-21) og það forskot þurfa okkar menn að vinna upp í Krikanum á laugardag.

Ekki láta þig vanta! / Mynd: Brynja T.
Nú er komið að okkur, að láta til okkar taka
Það voru sannarlega blikur á lofti í leiknum ytra, sem benda til þess að strákarnir geti gert nákvæmlega það þegar liðin mætast á nýjan leik í Mekka handboltans. Þrátt fyrir að hafa átt góðan leik úti, þá eigum við ýmislegt inni. Þjálfurunum hefur nú gefist tími til að fara enn betur yfir leik Slóvakanna og meta, hvar möguleikar okkar felast, með tilliti til þess sem vel gekk ytra og þess sem miður fór. Þar fyrir utan vita strákarnir það með vissu, að allt er hægt. Möguleikinn og tækifærið er fyrir hendi, og það er strákanna að grípa gæsina á meðan hún gefst.
Í stað þess að spila undir þrýstingi á erlendri grundu, þá geta strákarnir nú notið þess að spila fyrir framan okkur. Þeirra fólk. Þar getum við spilað rullu, sem stuðningsmenn FH. Við getum veitt strákunum þann byr í seglin, sem þarf til að sigla framhjá sterku liði og beint í riðlakeppni EHF-bikarsins, þar sem risastór verkefni bíða. Liðsmenn Presov bjuggust eflaust ekki við mótspyrnunni sem þeir fengu frá okkar mönnum á sínum eigin heimavelli, og það má reikna með þeim bognum ef laugardagurinn þróast þannig að okkar menn eiga séns þegar lítið er eftir. Beitum þrýstingnum sem brýtur þá.
Nú er að duga eða drepast. Sameinumst í stúkunni með trommusveitinni sem stendur vaktina viku eftir viku, leik eftir leik. Flykkjumst á bak við strákana okkar, sem munu skilja allt eftir á vellinum – á það getið þið treyst. Sjáum til þess að strákarnir geti treyst á okkur á pöllunum. Skrifum söguna saman.
Við erum FH!
– Árni Freyr
– Ingimar Bjarni