Sá Guli

FH x Píeta x Issi

Nýr þriðji búningur Fimleikafélagsins var opinberaður í Kaplakrika á föstudaginn fyrir leik FH-Fram í Bestu deild karla.
Strax eftir að sú bleika varð uppseld fórum við að skoða hvað við gætum gert að ári. Okkur langaði ekki bara að breyta um lit og halda sömu merkingum heldur vildum við gera eitthvað nýtt og ferskt, vera jafnvel með smá stæla.

Logi Hrafn og Arna taka sig vel út í þeim gula

Það er alltaf von

Logi Hrafn

Ég og Ólafur Þór Kristinsson, grafískur hönnuður, tókum samtalið, hófum hönnun og prófuðum ýmsar útgáfur. Guli liturinn varð fyrir valinu og Píeta samtökin varð málefnið sem við ætluðum að styrkja. Allar merkingar eru settar í 80´s búning, sóttum í eldri logo í einhverjum tilvikum, ný númer og „Það er alltaf von“ slagorð Píeta er aftan á hálsmálinu.

Mig langar að senda þakkir til Nike fyrir að hjálpa okkur í þessari framkvæmd, Lengjunni fyrir að leyfa okkur að nota gamla 1×2 logo, KFC fyrir að leyfa okkur að nota gamla logo-ið þeirra, Unbroken fyrir að fá að breyta þeirra logo aðeins og síðast en ekki síst KVIKU.
Mig langaði alltaf að gera þetta verkefni enn stærra og setja af stað alvöru markaðsherferð fyrir alla landsmenn eins og stórfyrirtæki. Aldrei lítill, alltaf stór.

Þessi treyja er nefnilega ekki bara ætluð FH-ingum, heldur líka fyrir hinn almenna áhugamann um flottar treyjur og ekki síður fyrir þá sem tengja eða vilja styrkja gott málefni.

Mig langar að þakka Guðjóni Elmari kærlega fyrir alla hjálpina þar. Við erum byrjaðir að keyra á sjónvarpsauglýsingu og svo í framhaldinu munu birtast vefborðar sem og auglýsingar í útvarpi. Takk svo mikið Guðjón!
Myndbandið er líklega það flottasta sem við höfum gert og Freyr Árnason og Orri Freyr eiga þar allt hrós skilið. Við héldum þar í hefð sem hefur skapast að vinna með hafnfirskum tónlistarmönnum en rapparinn ISSI les inn textann. Lokaskotið í myndbandinu er fallegt þar sem Jón Páll heldur á treyju ungs FH-ings Orra Ómars, sem fór frá okkur alltof snemma. En Jón Páll þjálfaði hann upp alla yngri flokka FH.
Ólafur Már Svavarsson tók svo myndirnar af sinni alkunnu snilld, þökkum honum kærlega fyrir það.

/ Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH

Arna Eiríks

Aðrar fréttir