Sanngjarnt jafntefli í háspennuleik að Ásvöllum

Stórmeistarajafntefli varð raunin í fyrsta leik okkar manna í Olísdeildinni í gærkvöldi, en þeir voru þá í heimsókn hjá nágrönnum vorum í Haukum. Lokatölur 29-29 í æsispennandi leik, sem ekki voru ósanngjörn úrslit miðað við gang mála.

Fógetinn stýrði umferðinni að venju í kvöld / Mynd: Jói Long

Rauðklæddir heimamenn voru með frumkvæðið í leiknum til að byrja með. Almennt virkuðu þeir beittari heldur en lið FH í sínum aðgerðum, og þá var töluverður munur á markvörslu liðanna. Að korteri liðnu var munurinn orðinn 5 mörk, 10-5, og útlitið ekki sem best fyrir okkar menn.

Breytingar, sem um það leyti voru gerðar, reyndust vera til hins betra fyrir FH-liðið. Lazar Minic kom í markið og varði 5 bolta áður en hálfleikurinn var úti, og þá fundu strákarnir í auknum mæli lausnir á varnarleik Haukanna með góðum innleysingum. Það dróg saman á milli liðanna, og náðu FH-ingar að minnka muninn í 1 mark skömmu áður en flautað var til hálfleiks. Að vísu náði Atli Már Báruson að fóðra forskot Haukamanna með flautumarki, en það gerði lítið til – strákarnir okkar höfðu komið sér aftur inn í leikinn, eftir að hafa litið illa út á köflum.

Birgir Már stóð sig vel í fyrsta deildarleik sínum með FH / Mynd: Jói Long

Í seinni hálfleik mættu FH-ingar mun beittari til leiks heldur en í þeim fyrri. Þegar 5 mínútur voru liðnar af hálfleiknum kom Arnar Freyr Ársælsson okkar mönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum (18-19), og frá þeim tímapunkti einkenndi leikinn háspenna. Jóhann Birgir Ingvarsson steig upp svo um munaði, og hélt skotsýningu. Alls skoraði hann 9 mörk í leiknum, og var markahæstur í liðinu ásamt Ásbirni Friðrikssyni. Var það einna helst Atli Már á hinum endanum sem að svaraði fyrir lið Hauka, en hann varð markahæstur þeirra með 10 mörk.

Var það vel við hæfi að þessir tveir skyldu eiga tvö síðustu mörk leiksins. Atli Már kom Haukum í 29-28 þegar mínúta var eftir, og Jóhann Birgir jafnaði skömmu fyrir lokin. Lokaniðurstaðan varð því þessi, 1 stig á hvort lið eftir hörkuleik sem gefur góð fyrirheit fyrir komandi vetri.

Vissulega var margt sem betur mátti fara í þessum leik, en vert er að horfa á björtu hliðarnar. Fyrir það fyrsta þá var afar ánægjulegt að sjá Jóhann Birgi spila með þessum hætti. Við vitum það öll, sem fylgst höfum með honum í gegnum tíðina, að þegar sjálfstraustið er í botni og líkamlegt ástand er gott þá er fátt sem stoppar hann. Það sást á skotunum sem hann tók og mörkunum sem hann skoraði, að drengnum eru allir vegir færir. Hið allra besta mál!

Ásbjörn átti einnig flottan leik sóknarlega, og var þá sérstaklega öruggur á vítapunktinum. Birgir Már Birgisson spilaði vel í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið, en hann skoraði 5 mörk úr 6 skotum. Býsna góð nýting úr horninu, og ljóst er að þar er á ferðinni hörkuspilari.

Næsti leikur strákanna er á sunnudaginn næstkomandi, 16. september, en þá taka þeir á móti liði Fram í Kaplakrika. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en hörkuleik þar, enda sýndu Framarar hvers þeir eru megnugir í þessari fyrstu umferð með því að stela stigi frá meistaraefnum Vals. Meira um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Jóhann Birgir Ingvarsson 9, Ásbjörn Friðriksson 9/6, Birgir Már Birgisson 5, Einar Rafn Eiðsson 3, Ágúst Birgisson 2, Arnar Freyr Ársælsson 1.
Varin skot: Lazar Minic 5 (33%), Birkir Fannar Bragason 2 (10%).

Aðrar fréttir