Seiglan skilaði sætum sigri gegn Bandalaginu

Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Þetta ber liðum að vita, sem spila gegn svarthvítu hetjunum okkar.

Eftir að hafa elt þrefalda meistara ÍBV lengst af í leik gærkvöldsins, sigu strákarnir okkar fram úr á lokasprettinum og unnu dísætan eins marks sigur. 28-27 voru lokatölur leiksins, mikilvægur seiglusigur fyrir toppbaráttuna staðreynd.

Óstöðvandi! Fógetanum héldu engin bönd í gærkvöldi. / Mynd: Jói Long

Lengst af í leiknum leiddu gestirnir frá Eyjum. Þeir spiluðu góða vörn og áttu í ofanálag of auðvelt með að finna opnanir á FH-liðinu hinum megin á vellinum. Forystan var 2 mörk í hálfleik, 12-14, og því ljóst að okkar menn máttu stíga vel upp í þeim seinni til að ná einhverju út úr leiknum.

Byrjun síðari hálfleiks lofaði hins vegar ekki góðu, því það voru Eyjamenn sem mættu grimmari til leiks og voru komnir með 5 marka forskot, 17-22, þegar 11 mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Á þeim tímapunkti tók Halldór Jóhann leikhlé, og það skiljanlega – eitthvað stórt þurfti að gerast til að bjarga mætti stigi eða tveimur úr leiknum.

Þá kom það. Næstu 10 mínútur leiksins spilaði FH-liðið frábærlega, og vann þann kafla með 7 mörkum gegn 2 mörkum peyjanna. Staðan orðin 24-24 og það ómögulega orðið að raunveruleika. Á þessum tímapunkti var aldrei spurning í mínum huga hvernig leikurinn myndi enda. Eftir þessa risaendurkomu var allur skriðþungi með okkur, stúkan vaknaði til lífsins og strákarnir voru stuði. Þá sérstaklega einn.

Það héldu Ásbirni Friðrikssyni engin bönd síðustu 10 mínútur leiksins. Hann skoraði, að meðtöldu jöfnunarmarkinu, síðustu 5 mörk FH-liðsins í leiknum og sigldi þessu heim. Risastórar vörslur Birkis Fannars Bragasonar hjálpuðu einnig til við að loka þessu. Sá steig upp þegar mest var þörfin þar á. Lokatölur í leiknum voru eins marks sigur FH-liðsins á þreföldum meisturum ÍBV, 28-27, í æsispennandi leik.

Upp með hendur! Bjarni Ófeigur mundar hér byssuna, og viðbrögð Eyjamanna láta ekki á sér standa. / Mynd: Jói Long

Ásbjörn var, einu sinni sem oftar, markahæstur í liði FH að þessu sinni með 12 mörk. Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti sinn besta leik fyrir FH-liðið til þessa, en hann sýndi mikla ákefð og uppskar fyrir hana 7 mörk. Mörkin voru í öllum regnbogans litum. Bæði sýndi hann okkur hversu öflugur hann er í gegnumbrotum, en einnig komu flott skot að utan sem Kolbeinn Aron í marki ÍBV réði ekki við. Var hann okkur einkar mikilvægur í ljósi þess að Eyjamenn gengu hart fram gegn Ásbirni og Einari Rafni Eiðssyni mestan part leiksins, og sú mikla ógn sem stafaði af honum opnaði til muna fyrir aðra leikmenn liðsins – ekki síst Ásbjörn.

Það ber að hrósa öllu FH-liðinu fyrir þann karakter sem það sýnir trekk í trekk. Fyrir það fyrsta þá er ekkert til sem heitir uppgjöf hjá strákunum okkar – þeir höfðu verið ólíkir sjálfum sér, jafnvel andlausir, framan af leik en þeir gátu samt sem áður rifið sig í gang þegar stutt var eftir og klárað dæmið. Þá fullyrði ég, að það er ekkert lið í deildinni jafn fært í því að klára jafna leiki á lokamínútunum og FH-liðið. Þetta eru eiginleikar sem einstaklega gott er að hafa, sérstaklega þegar líður á mótið. Þessi barátta og þessar stáltaugar.

Sigurinn í gærkvöldi skilaði FH-liðinu í 2. sæti deildarinnar, og eru strákarnir nú jafnir toppliði Selfoss að stigum, en Sunnlendingar eiga reyndar leik til góða í kvöld gegn Haukum. Við erum þar sem við viljum vera. Næsti leikur er sannkallaður risaslagur, en þá halda strákarnir á Hlíðarenda og mæta þar sterku liði Vals. Sá leikur fer fram á mánudag eftir viku, þann 19. nóvember. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

-Árni Freyr

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 12/4, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 7, Birgir Már Birgisson 3, Arnar Freyr Ársælsson 2, Ágúst Birgisson 2, Jóhann Birgir Ingvarsson 1, Einar Rafn Eiðsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 7 (30%), Kristófer Fannar Guðmundsson 3 (21%).

Aðrar fréttir