Sigmundur ,,okkar” Ástþórsson vallarstjóri 2020

Samtök íþrótta og golfvallastarfsmanna á Íslandi, SÍGÍ, eru samtök sem stuðla að fagmennsku hjá félagsmönnum sínum og sér þeim fyrir sem bestum upplýsingum til að auðvelda þeim starf sitt á golf- og íþróttavöllum á Íslandi. Markmið SÍGÍ eru að viðhalda og bæta gæði golf- og íþróttavalla hérlendis.

SÍGÍ hefur staðið fyrir fræðslufundum, sýningum, golfmótum og heimsóknum jafnt hérlendis sem erlendis. Nýverið fór fram ráðstefna á vegum SÍGÍ í höfuðustöðvum Knattspyrnusambands Íslands. Að ráðstefnunni lokinni fór fram kvöldverður í golfskála Golfklúbbsins Keilis á Hvaleyrarvelli. Þar var greint frá kjörinu á vallarstjórum ársins 2020 hjá SÍGÍ en kosið er um vallarstjóra á knattspyrnuvöllum og einnig á golfvöllum.

Jóhannes Ármannsson hjá Golfklúbbi Borgarness varð hlutskarpastur í kjörinu hjá golfvallastjórum og Sigmundur Pétur Ástþórsson hjá FH varð efstur hjá vallarstjórum á knattspyrnuvöllum – og er þetta í fjórða sinn sem hann fær þessa viðurkenningu fyrir Kaplakrikavöll.

Þetta er í fyrsta sinn sem Jóhannes fær þessa útnefningu. Hamarsvöllur í Borgarnesi hefur verið í umsjón Jóhannesar í mörg ár en hann er jafnframt framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness.

Við FHingar óskum Simma innilega til hamingju með þetta og erum einstaklega stolt af honum.

Á myndinni hér fyrir ofan eru Sigmundur og Jóhannes með verðlaunin sín.

Aðrar fréttir