Sigur á Þór í baráttuleik!

Sigur á Þór í baráttuleik!

Í gærkveldi tóku FH-ingar á móti Þór AKureyri í DHL-deild karla í handknattleik. Fyrir leikinn voru strákarnir í 9. sæti, einu stigi frá 8. sætinu mikilvæga sem stefnt er að. Leikurinn var því gríðarlega mikilvægur en byrjaði vægast sagt skelfilega fyrir okkar menn.

Framan af var jafnræði með liðunum sem bæði virtust vera að spila á hálfum hraða. Ekki var mikið um varnir en okkar menn voru þó óheppnari með skot þar sem fátt var að detta inn. Eftir u.þ.b. 18 mínútna leik dró svo til tíðinda, en þá voru FH-ingar yfir 9-6. Línumaður Þórsara gaf þá Daníel Berg, leikstjórnanda okkar manna, hressilegt olbnogaskot í andlitið. Dómarar leiksins sáu ekki ástæðu til þess að dæma neitt á brotið, en stuttu síðar í sömu sókn, gáfu þeir hins vegar Jóni Helga Jónssyni, hægri skyttu okkar FH-inga, beint rautt spjald fyrir brot sem virtist afar saklaust, séð úr pöllunum.

Þetta atvik fór mjög illa í okkar menn, en að sama skapi hleypti þetta lífi í Þórsara sem gáfu allt í botn og hreinlega keyrðu okkar menn niður fyrir hálfleik, en þegar menn gengu inn í klefa var staðan 12-17, Þórsurum í vil!

Eitthvað hefur hálfleiksræða þjálfarateymisins náð í gegn, því það var allt annað FH-lið sem kom inn á völlinn í síðari hálfleik. Eftir að hafa minnkað muninn í 16-20, sögðu þeir hingað og ekki lengra. Brjáluð vörn í bland við hraðaupphlaup sem hefðu látið margan spretthlauparann svitna, skiluðu sér í hreint út sagt frábærum kafla okkar manna og staðan allt í einu orðin 22-21, FH í vil!

Þrátt fyrir að munurinn hafi síðan haldist í 2-3 mörkum eftir þetta, virtust Þórsararnir aldrei líklegir til þess að jafna metin og komast yfir, þrátt fyrir að hafa fengið tækifæri til þess. Lokatölur urðu 29-26 fyrir FH og sitja strákarnir þessa stundina í 8. sætinu, en þó eiga KA-menn leik til góða á þá og geta komist upp fyrir þá á ný með sigri á Val í dag.

Leikurinn í gær var mjög kaflaskiptur en spilamennsku FH-inga í fyrri og seinni hálfleik er varla hægt að bera saman. Hálfleiksræðan frá fóstbræðrunum Atla og Arnari hefur án efa skilað sínum, en innkoma Hjartar Hinrikssonar í síðari hálfleik virtist einnig hleypa lífi í okkar menn. Hjörtur var ávallt fremstur í hraðaupphlaupunum og barðist eins og ljón í vörninni, sem klárlega smitaðist yfir til liðsfélaga hans. Valur Örn Arnarsson átti einnig fínan leik, en almennt var það liðsheildin sem skóp þennan sigur með baráttunni í seinni hálfleik.

Næsti leikur liðsins er gegn ÍR og eins og allir leikir sem eftir eru, er hann hreinn og beinn úrslitaleikur. Strákarnir þurfa sigur og ekkert annað en sigur og því eru FH-ingar hvattir til þess að mæta í Breiðholtið í næstu viku og styðja strákana áfram.

Dagsetning á leiknum verður auglýst síðar.

Aðrar fréttir