Sigur og tap í Fífunni

Sigur og tap í Fífunni

Í A-leiknum náði Andri Gíslason forystunni fyrir FH eftir u.þ.b. 5 mínútna leik með marki eftir hornspyrnu. Stuttu síðar hefði FH getað bætt við marki en Blikar björguðu á línu. Kópavogsbúar voru sterkari í fyrri hálfleik og náðu verðskuldað að jafna leikinn og komast yfir fyrir hlé 2-1.
Leikur FH-inga var slakur í fyrri hálfleik en síðari hálfleikur var mun betri og strákarnir sóttu nokkuð stíft að marki Breiðabliks í upphafi seinni hálfleiks en inn vildi boltinn ekki. Blikar bættu við marki þegar um 15 mínútur voru til leiksloka en strákarnir gáfust ekki upp og Hilmar Ástþórsson minnkaði muninn í 2-3 með glæsilegu skoti 5 mínútum fyrir leikslok en nær komust FH-ingar ekki.

Í leik B-liðanna var annað upp á teningnum. FH-strákarnir byrjuðu af miklum krafti og komust fljótlega í 2-0 með tveimur mörkum frá Viktori Smára Segatta. Blikar náðu þó að jafna fyrir leikhlé eftir andvaraleysi í vörn FH.
Seinni hálfleikur var mun betri hjá FH-ingum og Bjarni Þór Guðmundsson náði forystunni á nýjan leik þegar hann batt endahnútinn á góða sókn þar sem Ísak Bjarki Sigurðsson hafði farið illa með vörn Breiðabliks.
Á síðustu mínútunni innsiglaði Viktor sigur FH og fullkomnaði þrennuna með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Viktor fékk þó ekki að fara heim með keppnisboltann!

Nebojsa Kospenda hinn eitilharði varnarmaður FH fékk þungt höfuðhögg í leiknum og vankaðist illa. Hann var fluttur í snarheitum á slysadeild en sem betur fer er allt í lagi með strákinn. Næstu leikir 3. flokks eru æfingaleikir við Hauka á þriðjudag á Ásvöllum. A-liðið spilar kl. 12:00 og B-liðið strax á eftir.

Aðrar fréttir