Sigur strákanna sanngjörn niðurstaða í Breiðholti

Strákarnir okkar sóttu í gærkvöldi sterkan sigur í Breiðholtið, þegar þeir lögðu ÍR að velli með tveggja marka mun í Austurbergi, 26-28.

Einar Rafn átti stórgóðan leik í gærkvöldi / Mynd: Jói Long

Leikurinn var nánast jafn á öllum tölum, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Liðin náðu sitthvorri tveggja marka forystunni en annars var allt í járnum. Að fyrri hálfleiknum loknum leiddu okkar menn með eins marks mun, 14-15, og var það vel verðskuldað.

Breiðhyltingar byrjuðu síðari hálfleik að krafti, skoruðu tvö fyrstu mörk hans og komu sér í eins marks forystu. Í kjölfarið tóku hins vegar við fjögur mörk í röð frá FH-ingum, sem hrifsuðu þar með öll völd í leiknum til sín.

Eftir þetta, þ.e. stöðuna 16-19, sýndu strákarnir gæði sín í verki. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn, en úr því varð ekki. Munurinn var lengst af 2-4 mörk fram að lokaflautinu, og var því ekkert vesen. Lokatölur eins og áður sagði 26-28, FH í vil.

Breiðhyltingar réðu lítið við Ása / Mynd: Jói Long

Liðið allt í allt spilaði heilsteyptan og góðan leik í gær. Markvarslan var verulega fín, en Birkir Fannar Bragason var með 15 bolta varða og stóð sig vel. Ásbjörn Friðriksson átti enn einn stórleikinn í sóknarleik FH-liðsins, en hann skoraði 9 mörk og reyndist Breiðhyltingum afar erfiður.

Með sigri gærkvöldsins er FH-liðið komið upp í 2-3. sæti deildarinnar, þar sem við viljum vera. Það er stutt á milli stórra verkefna þessa dagana, því á sunnudag halda drengirnir í Mosfellsbæ og mæta sterku liði Aftureldingar að Varmá. Sannkallaður stórslagur, því Mosfellingar sitja aðeins sæti neðar en okkar menn og með stigi minna. Það verður því án nokkurs vafa hart barist þar. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 9/4, Einar Rafn Eiðsson 6, Birgir Már Birgisson 6, Ágúst Birgisson 4, Arnar Freyr Ársælsson 3.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 15/2 (37%).

Aðrar fréttir