Sigursteinn með undramark á elleftu stundu!

Sigursteinn með undramark á elleftu stundu!

Það blés ekki byrlega í upphafi leiks. Eyjamenn komust 1-5 yfir og virtust hafa öll ráð í hendi sér. FH-ingar brugðu á það ráð að taka örvhenta skyttu Eyjamanna úr umferð og drifnir áfram af stórleik Vals Arnarsonar náðu þeir að jafna leikinn og höfðu meira að segja tveggja marka forystu í hálfleik 13 – 11.

Seinni hálfleikur var æsispennandi, FH-ingar leiddu lengst af og þegar skammt var til leiksloka var staðan 24-21 heimamönnum í vil. FH-ingar léku hins vegar afar óskynsamlega og Eyjamenn komust í 24-25 og nú andvörpuðu menn á áhorfendapöllunum og spurðu hvern annan í forundran hvort FH-liðið væri að kasta enn einum sigrinum á glæ. FH-ingar girtu sig hins vegar í brók. Hjölli (Hjörleifur Þórðarson línumaður) jafnaði leikinn – Elvar varði í næstu sókn – og FH-ingar fengu aukakast þegar 4 sekúndur lifðu leiks. Stillt var upp fyrir Sigurstein Arndal sem er kannski ekki þekktur fyrir sín þrumuskot en hann sett’ann í samskeytin og FH-ingar fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri.

Bestu menn FH voru tvímælalaust Elvar markvörður sem átti stórleik. Valur Arnarson átti mjög góðan leik og skoraði 8 mörk og hélt FH-ingum á floti í fyrri hálfleik. Þá var Sigursteinn Arndal skynsemin uppmáluð og átti góðan leik.

Þá ber að geta þess að ungur og efnilegur strákur Aron Pálmarson lék sinn fyrsta meistaraflokksleik en hann er á sextánda ári. Aroni var afar vel fagnað af áhorfendum enda vita FH-ingar að hér er efni á ferð. Hann kom inn í vinstra hornið en hafði á sér yfirbragð leikmanns sem ætti nokkur hundruð leiki að baki. Aron skoraði eitt mark úr einu skoti, lokaði sínu horni í vörninni og lék vel.

Næsti leikur er gegn KA fyrir norðan á föstudag og sá leikur, rétt eins og þessi, verður að vinnast.

Aðrar fréttir