Silfrið fer í Kaplakrika

Silfrið fer í Kaplakrika

Eins og alþjóð veit hrepptu Íslendingar silfur á ólympíuleikunum í gærmorgun. Mikil stund fyrir íslenskan handbolta og íþróttalíf almennt. Þetta er líka mikil stund fyrir FH því að í liðinu er, okkar maður, Logi Geirsson sem spilaði mjög vel á mótinu. Í samtali við moggann í dag segir Logi að silfrið muni fara í Kaplakrika.


Logi lengst til vinstri

Logi segir meðal annars í mogganum: Það er einstök upplifun að hafa fengið að upplifa þetta sumar með þessum strákum. Mestu forréttindi í heimi. Ég hef aldrei á minni lífstíð átt eins magnaða stund sem íþróttamaður. …Ég verð á besta aldri á næstu leikum og núna veit maður hvernig maður á að fara þessa leið.

Logi segir síðan: Ég er ógeðslega stoltur af þessu og ég fer með silfrið í Kaplakrikann til pabba (Geirs Hallsteinssonar) þar sem verðlaunapeningurinn verður geymdur. Hann tók þátt árið 1972 í Munchen og hann var fánaberi á þeim leikum. Aldrei að vita nema eftir fjögur ár fái maður tækifæri til þess að ganga í hans fótspor og fara einu skrefi lengra.

Þetta er frábær árangur Logi. Við FHingar erum ólýsanlega stoltir og sendum þér hlýjar kveðjur!

Aðrar fréttir