Silja Þórðar situr fyrir svörum

Silja Þórðar situr fyrir svörum

Á sunnudaginn næstkomandi fer fram leikur Stjörnunnar og FH í Garðarbænum.  Reynsluboltinn Silja þórðardóttir er fyrirliði FH og hún hafði þetta að segja um leikinn framundan.

Sæl Silja. Hvað er að frétta af þér og hvað er að frétta af liðinu?

Sæll Davíð. Ég er alveg einstaklega hress þessa stundina verð ég að segja. Liðið er á blússandi siglingu, góður mórall og allt með besta móti.

Eftir erfiða byrjun þá hefur FH-liðið verið að spila vel að undaförnu. Samhliða hafa stigin verið að koma í hús. Hvað veldur því að liðið hefur verið spila betur eftir því sem líður á mótið?

Það er margt sem spilar inní. Það var mikil spenna í liðinu í upphafi móts, margar stelpur að spila sína fyrstu leiki í úrvalsdeild og aðrar að spila þar aftur eftir ágætis stopp í fyrstu deild. Okkur hafði gengið vel á vormótunum, en fyrir Íslandsmótið misstum við “eldri” og reynda leikmenn í meiðsli sem höfðu átt  fast sæti í byrjunarliðinu í vor. Jæja, svo byrjar mótið með tapi gegn KR og við vinnum ekki leik á mótinu fyrr en gegn Haukum í síðasta leik fyrri umferðar, ekki beint óskabyrjun í úrvalsdeild! En við erum sterkur hópur og höfum haft gleðina að leiðarljósi í sumar, höfum notað æfingarnar vel og farið yfir atriði sem betur mega fara. Mórallinn hefur verið mjög góður þrátt fyrir eilífa fallbaráttu og margir komið að því að halda fókusnum á réttum stað m.a. með fyrirlestrum um hugarfar og leikgleði. Þetta hefur svo verið að skila sér með góðum úrslitum upp á síðkastið.     

Það var góður sigur í síðasta leik gegn Blikum. FH hefur ekki sótt gull í greipar Blika á undanförnum árum. Hvað skóp þann sigur?

Augljóslega þurftum við á stigum að halda til að eiga möguleika á að spila í úrvalsdeild að ári. Fyrr í sumar höfðum við tapað niður jafntefli gegn Breiðablik með því að fá á okkur tvö mörk á 86. og 88. mín. og vorum að vonum mjög svekktar eftir þann leik og staðráðnar í að gera betur næst. Við erum búnar að vinna vel í okkar leik síðan þá og með hárfínni blöndu af baráttu og skynsemi náðum við að landa þessum þremur mikilvægu stigum. 

Hvernig lýst þér á leikinn á sunnudaginn gegn Stjörnunni á „teppinu“  í Garðabæ og hvað þarf FH að leggja áherslu á til að ná góðum úrslitum í þeim leik.

Leikurinn leggst vel í mig. Við þurfum að eiga toppleik til að ná góðum úrslitum. Við verðum að vinna fyrir hverja aðra, vera mjög vel skipulagðar varnarlega og skapandi í sókn með dass af kæruleysi…..þá kemur þetta 😉 

 

Gangi þér og stelpunum vel! Áfram FH

Aðrar fréttir