
Skin og skúrir í Garðabæ
Nokkur skörð voru höggvin í raðir A-liðsins fyrir leikinn í dag. Aron Pálmarson markvörður var meiddur sem og Hákon Hallfreðsson. Því þurfti að grípa til þess ráðs að færa miðvörðinn og handboltamarkvörðinn Sigurð Senderos í markið en Siggi hefur verið að leika afar vel í vörninni að undanförnu en hann er samt sá eini sem gat leyst markmannsstöðuna.
FH-ingar byrjuðu betur og Björn Daníel Sverrison kom þeim yfir með marki beint úr aukaspyrnu eftir um 10 mínútna leik. Stjörnumenn jöfnuðu strax í næstu sókn eftir samskiptaleysi í FH-vörninni sem átti eftir að vera rauði þráðurinn í þessum leik. Það er skemmst frá því að segja að Stjörnumenn bættu við þremur mörkum af ódýrara taginu og leiddu 4-1 í hálfleik.
Í byrjun seinni hálfleiks virtust FH-ingar ákveðnir að koma sér inní leikinn en misnotuðu þrjú góð færi, Stjörnumenn skoruðu fimmta markið og eftir það fjaraði hratt undan leik FH. Garðbæingar stráðu salti í sárin með tveimur mörkum til viðbótar seint um síðir og úrslitin 7-1 afhroð FH-inga.
Það er erfitt að setja fingurinn á eitthvað eitt sem fór úrskeiðis því liðið spilaði skelfilega illa, það er þó augljóst að þær hrókeringar sem þurfti að gera í öftustu víglínu hafði slæm áhrif á liðið. Ekki þar fyrir að menn virtust vera á hælunum og andleysið var algjört, sem er einkennilegt því FH dugði jafntefli til að komast í undanúrslit á mótinu. Áberandi undantekning frá þeirri lognmollu sem ríkti meðal leikmanna FH var Björn Daníel Sverrisson fyrirliði sem var yfirburðamaður.
Lið FH: Siggi – Hafþór, Gummi, Óli, Axel – Jökull (Davíð Þ. 40.), Björn, Örn(Árni Grétar 65.), Magnús – Gunnar Páll (Garðar 65.), Brynjar.
Allt annað var uppi á teningnum í leik B-liðanna. Reyndar byrjaði Stjarnan betur og náði forystunni eftir um stundarfjórðungs leik. En FH-ingum óx ásmegin og hinn krúnurakaði Garðar Leifsson jafnaði úr víti stuttu fyrir hálfleik eftir að Ísak Bjarka Sigurðssyni hafði verið brugðið inni í teig. Áður hafði Davíð Atli Steinarsson brennt af víti fyrir FH.
Í seinni hálfleik voru FH-ingar mun sterkari aðilinn og áttu fjölmörg færi en inn vildi boltinn ekki. Það var ekki fyrr en um 4 mínútum fyrir leikslok að Davíð Atli Steinarsson tryggði FH sigurinn með glæsilegu skoti efst í markhornið fjær.
Sætur sigur hjá B-liðinu sem vann þar með mótið með fullu húsi stiga.
Lið FH: Tómas, Hóli, Sveinn, Ásgeir, Stefán, Guðjón, Vignir, Garðar, Gunnar Emil, Hilmar, Davíð Atli, Davíð Steinars, Davíð Sig, Árni Grétar.