Skref stigið í rétta átt með stórsigri á Fjölni

Stelpurnar okkar lönduðu fyrsta heimasigri tímabilsins í kvöld, þegar lið Fjölnis mætti í heimsókn. Komust þær þar með upp að toppi deildarinnar þar sem þær sitja ásamt Gróttu, Aftureldingu og Fylki – en hin tvö síðarnefndu eiga að vísu leik til góða.

FH-liðið var með frumkvæðið í leiknum allt frá upphafi, og vaknaði í raun aldrei upp alvöru efi um útkomu leiksins. Stelpurnar fóru með 5 marka forystu inn í hálfleik, 17-12, og virkuðu nokkuð þægilegar. Lið Fjölnis mætti að vísu vel stemmt til leiks í þeim síðari og náði að minnka muninn í 3 mörk, en það varð bara til þess að okkar stelpur stigu á bensíngjöfina fyrir alvöru. Að lokum voru það 11 mörk sem skildu liðin að, lokatölur 31-20 FH í vil. Sigur sem var síst of stór.

Í jöfnu og góðu liði FH var það Ragnheiður Tómasdóttir sem reyndist atkvæðamest, en hún skoraði 7 mörk í leiknum. Andstæðingar FH-liðsins til þessa hafa fengið að kenna á þeirri hættu sem stafar af henni í hraðaupphlaupum, og á því varð engin undantekning í kvöld. Afar hættulegt vopn sem við búum yfir þar! Sylvía Björt Blöndal varð næstmarkahæst með 6 mörk í 8 skotum, og þá bætti Aníta Theodórsdóttir við 5 mörkum af línunni.

Í marki FH-liðsins stóð Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving vaktina vel, en hún varði 12 bolta í heildina. Ekki skemmdi fyrir að í miðjublokkinni varði Britney Cots eins og berserkur – 6 varðir boltar frá henni, og 2 til viðbótar frá Fanneyju Þóru sem stóð henni við hlið, voru ekki til þess að auðvelda Fjölniskonum lífið.

Það var boðið í blokk partí í Krikanum í kvöld / Mynd: Brynja T.

Allt í allt var um verulega góða frammistöðu að ræða hjá liði FH, sem fer svo sannarlega vaxandi með hverjum leik. Haldi stelpurnar áfram á sömu braut er allt útlit fyrir afar skemmtilegan vetur í Mekka, sem gaman verður að fylgjast með í þróun. Næstkomandi föstudag leggja þær land undir fót og halda alla leið í Garðabæ, þar sem þær mæta ungmennaliði Stjörnunnar í Mýrinni. Vonandi sjáum við þar eitt skref enn í rétta átt, í átt að því hvar við eigum sannarlega heima.

Við erum FH!

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 7, Sylvía Björt Blöndal 6, Aníta Theodórsdóttir 5, Britney Cots 4, Diljá Sigurðardóttir 3, Embla Jónsdóttir 3, Fanney Þóra Þórsdóttir 2, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 12.

Aðrar fréttir