Skúffelsi í sundlaugargrennd

Grafarvogslaug opnaði 1998 og var bætt smátt og smátt við hana á næstu árum á eftir. Núna er þar innilaug, útilaug, vaðlaug, leiklaug og heitir pottar. Þar er einnig ein rennibraut ásamt barnarennibraut.

Af hverju erum við að lesa okkur til um Grafarvogslaug? Því ég vil virkilega ekki skrifa um þennan leik…en jæja, ,,dýfum” okkur í þetta.

Embla opnaði oft á tíðum vel fyrir sig og samherja sína / Mynd: Brynja T.

Það var ljóst frá fyrstu mínútum leiksins að það væri ekki sama FH-lið sem mætti í Dalhús í kvöld og mætti Fram U í Kaplakrika í síðustu viku. Sóknin var stirðbusaleg og eina ógnin kom frá tilraunum Emblu Jónsdóttir til að opna svæði fyrir liðsfélaga sína. Fyrir aftan Fjölnisvörnina var svo Karen Birna Aradóttir í miklu stuði.

Varnarvinnan var þó framan af mjög góð og fór þar Fanney Þóra mikinn með margar góðar stöðvanir, en hún og Britney Cots stóðu sig einnig vel í hávörninni í fyrri hálfleik. Sóknin var áfram full af klaufamistökum og þegar fyrri hálfleik lauk var staðan jöfn, 11-11.

Fjölnisstelpur tóku snemma forystu í seinni hálfleik. Sókn FH batnaði ekkert fyrstu 10 mínúturnar, sama hvaða leikmenn voru á vellinum. Að þeim loknum kom besti kafli FH-liðsins í leiknum og kom Diljá FH í 16-17 þegar 17 mínútur voru eftir. Liðið gat hinsvegar ekki hrist Fjölnisstelpur almennilega af sér, Karen Birna í marki Fjölnis hreinlega leyfði það ekki, og brátt var Fjölnisliðið aftur komið í forystu.

Átjánda mark Fjölnis, og sitt níunda í leiknum skoraði Ólöf Ásta Arnþórsdóttir, sem svo skoraði nítjánda mark Fjölnis, tuttugasta markið og svo tuttugastaogfyrsta markið. Hún lék sér að því að skilja varnarmenn FH eftir á hælunum og dró vagninn lengi vel sóknarlega fyrir sitt lið.

Ragnheiður var markahæst okkar stelpna með 5 mörk líkt og sveitungur hennar, Aníta, á línunni / Mynd: Brynja T.

FH-liðið minnkaði muninn í 24-23 á síðustu fimm mínútum leiksins og á sama tíma gerði óreynt lið Fjölnis sóknarfeila hægri vinstri. Það var greinilegt að þær voru að fara úr límingunni þegar styttist í sigur á liði sem þær skíttöpuðu fyrir í haust.

FH-liðið fór þá að spila á fullu gasi í sókninni og gat fléttað sig niður á sex-metrana í hverri einustu sókn en fyrir þeim var Karen Birna Aradóttir, líkt og dauðinn sjálfur. Óhjákvæmileg, óstöðvanleg og á tánum.

Að lokum fór svo að Fjölnisliðið vann 25-23. Sókn og (í seinni hálfleik) vörn FH-liðsins svipaði mun meira til fyrsta leiks ársins gegn Aftureldingu heldur en fyrsta heimaleiks ársins gegn Fram U. Markvarslan var næstum engin, þrír boltar í fyrri hálfleik og enginn í þeim seinni. Við auglýsum eftir FH-liðinu sem vann ÍR í 16-liða úrslitum Coca Cola bikarsins enda fer að styttast í 8-liða úrslitin og einnig verður umspilssætið í deildinni í hættu ef þetta heldur svona áfram.

VIÐ ERUM FH!

-Gimmi

Mörk FH: Aníta Theodórsdóttir 5, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Sylvía Björt Blöndal 4, Britney Cots 3, Diljá Sigurðardóttir 3, Embla Jónsdóttir 2, Fanney Þóra Þórsdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 3.

Aðrar fréttir