Slyddujól í Hafnarfirði þetta árið

Jólahátíðin byrjaði fyrir alvöru í gærkvöldi þegar um 1500 Hafnfirðingar í rauðu eða hvítu settust á pallana í Krikanum til að fylgjast með ,,El Klassíkó”. Fyrir leik var eitt stig milli liðanna og gestirnir gátu komið sér í toppsætið með sigri. Stærsta veisla í íslenskum handbolta er alla jafnan viðureignir þessara liða og þó það væri rigning og rok úti var sjóðandi hiti á parketinu.

Frábær mæting, eins og vanalega þegar þessi lið mætast! / Mynd: Jói Long

Leikurinn einkenndist af virkilega góðum varnarleik allan tímann. Til að byrja með voru heimamenn sterkari og fór Fógetinn fyrir okkar mönnum, skoraði fjögur af fyrstu sjö mörkum liðsins á meðan það gekk lítið í sóknarleik gestanna. Eftir að Ásgeir Örn var rekinn af velli eftir korter kom engin annar en Birkir Fannar Bragason FH-ingum í 8-4, en samt leið manni eins og það væri ekki nema mark á milli liðanna.

Seinna korterið í fyrri hálfleik söxuðu gestirnir hægt og bítandi á forystu okkar stráka. Heimir Óli var eins og oft áður manna grimmastur í vörn og sókn Hauka og minnkaði muninn í eitt mark undir lok fyrir hálfleiks, 14-13.

Gestirnir þjöppuðu vörninni gífurlega í byrjun seinni hálfleiks. Þeir skoruðu ekki mikið, en okkar menn skoruðu ennþá minna. Haukar komust yfir snemma en mikil seigla FH, sérstaklega varnarlega kom í veg fyrir að þeir næðu að byggja upp alvöru forystu. Það tók okkar menn átta mínútur að skora fyrsta markið í seinni hálfleik, sem Ágúst Birgisson gerði og svo kom annað markið tveimur mínútum seinna. Haukar náðu tveggja marka forystu og útlitið svart.

Í stöðunni 17-19 var Heimir Óli við það að stela boltanum af Freysa, sem hirti hann á frekjunni einni saman og minnkaði muninn í eitt. Skyndilega jókst hraðinn í leiknum, Haukar komust aftur í tvö og Jói minnkaði muninn samstundis í 19-20.

Bjarni Ófeigur var óhræddur við að taka af skarið þegar mest á reyndi / Mynd: Jói Long

Manni fannst heil eilíf líða þangað til næsta mark datt inn. Stundum þarf frábæra spilamennsku liðsins, sirkus eða geggjað hornasendingu. En stundum þarf bara einn maður að stíga upp og það gerði Bjarni Ófeigur. Hann var maður leiksins hjá FH og hans flottasta framtak kom á stuttum kafla þegar átta mínútur voru til leiksloka, hann reif sig tvisvar sinnum í gegnum vörn Hauka, jafnaði fyrst og kom svo FH yfir!

Einar Rafn og Ási sáu um næstu mörk og Kristó klukkaði mikilvæga bolta. Þegar þrjár mínútur voru eftir voru FH-ingar komnir með tveggja marka forystu. Allt stefndi í hvít jól en svo gott var það ekki.

Kannski fóru menn að hugsa of mikið um að verja forystuna, kannski náði Haukavörnin bara að stíga upp. En eftir tvær langar sóknir sem ekki enduðu með marki náðu gestirnir að jafna. Mínúta eftir, FH með boltann. Sókninn virtist taka mánuð, höndin komin á loft á þá mætti – hver annar – en Bjarni Ófeigur og skoraði.

Haukarnir höfðu sjö sekúndur til að jafna og fengu aukakast. Gunni Magg tók leikhlé. Því miður klikkaði eitthvað í veggnum, það var örsmár gluggi á honum og Adam nokkur Haukur lét ekki bjóða sér það tvisvar. Hann skoraði og, eins og viðeigandi er þegar Haukar ná í stig í Kaplakrika, var glimmer bomba sprengd yfir völlinn. Einstaklega pirrandi úrslit en líklega sanngjörn, ef maður hefur einhvern áhuga á slíku.

Freysi stóð fyrir sínu sóknarlega, eins og áður, og þá var hann stórkostlegur sem fremsti maður varnarlega / Mynd: Jói Long

Umræðupunktar:

Bjarni Ófeigur átti nokkuð erfitt í byrjun tímabils en í síðustu leikjum hefur hann skorað eins og skepna. Ef hann heldur áfram svona eftir áramót eru okkur allir vegir færir.

Talandi um alla vegi, þessi vörn sem FH-liðið er farið að spila er einfaldlega geggjuð. Stóra markmiðið hlýtur að vera að ná stöðuleika í henni, það eru ekki mörg lið sem munu ráða við hana.

Deildin er fáránlega jöfn í ár. FH eru í fjórða sæti, tveimur stigum á eftir toppliðinu og stigi á undan Aftureldingu, sem eru ekki nema tveimur stigum á undan Stjörnunni. Þetta verður æsispennandi fram á loka umferð.

Það eru tveir leikir eftir fram að pásu, annars vegar Víkingur í bikarnum og hins vegar Fram í deildinni, meira um þá leiki þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Ingimar Bjarni

Mörk FH: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 8, Ásbjörn Friðriksson 5/1, Arnar Freyr Ársælsson 3, Ágúst Birgisson 3, Einar Rafn Eiðsson 2, Birgir Már Birgisson 2, Birkir Fannar Bragason 1, Jóhann Birgir Ingvarsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 5, Kristófer Fannar Guðmundsson 5.

 

Aðrar fréttir