Snorri Sturluson spáir í leik FH-HK

Snorri Sturluson spáir í leik FH-HK

FH-ingar eru með gríðarlega sterkt lið á þessum síðustu og verstu, það er engin tilviljun að Hafnarfjarðarrisanum var spáð Íslandsmeistaratitli.  Það er varla veikan blett á FH-liðinu að finna, Pálmar er einfaldlega einn besti markvörður deildarinnar, vörnin er gríðarsterk og sóknarþunginn fyllir andstæðingana ótta strax í upphitun.  Tilkoma Loga Geirssonar hefur gert FH-ingum gríðarlega gott, hann stýrir ekki bara leik liðsins af myndarskap heldur fyllir samherjana sjálfstrausti.  Þar fyrir utan er Logi stórskemmtilegur karakter, sannkölluð lyftistöng fyrir íslenskan handbolta og maður sem jafnvel svörnustu andstæðingar FH eru tilbúnir til að borga fyrir að koma og sjá.  Óli Guðmunds er náttúruafl í sókninni, hann ætti hreinlega að vera á listamannalaunum og fá sérstakar aukagreiðslur fyrir að gleðja skilningarvit handboltaáhugafólks og Ási, sonur Sæma löggu, er einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar sem nýtur sín vel við hlið Loga.  Atli er magnaður línumaður sem grípur alla bolta sem liggja í tveggja metra radíus við hann og skilar annað hvort marki eða víti, hornamennirnir eru gríðarlega efnilegir og nýta færin sín vel og á bekknum bíða svo ungir og bráðefnilegir leikmenn í einfaldri röð og þeir hafa nýtt ágætlega þær mínútur sem þeir hafa fengið.  FH-ingar hafa ekki enn sýnt á sér veikleikamerki, a.m.k. ekkert sem vert er að tína til.

 

HK hefur liðið fyrir það undanfarin ár að miklar breytingar verða á leikmannahópnum á milli ára, en aðdáunarvert er engu að síður að liðið hefur verið í toppbaráttu deildarinnar undanfarin tvö ár.  Sú frammistaða ber reyndar fráfarandi þjálfara, öðlingnum Gunnar Magnússyni, fagurt vitni og Erlings og Kristins bíður ærið verkefni í vetur.  Ólafur Bjarki er í algjöru lykilhluverki hjá HK, einn áhugaverðasti leikmaður deildarinnar reyndar, og sóknarleikurinn stendur svolítið og fellur með honum.  Atli Ævar hefur staðið sig vel á línunni, eins og við var að búast, og Bjarki Már hefur sömuleiðis verið öflugur.  Björn Ingi hefur á köflum sýnt skemmtilega takta í markinu, hann á eftir að vaxa og dafna eftir því sem á leiktíðina líður.  HK-ingar geta tekið upp á því að leika eins og englar, þeir unnu Framara á heimavelli á dögunum og sýndu þá og sönnuðu að það má aldrei vanmeta þá.  Liðsheildin er sterkasta vopn Kópavogsliðsins og frammistaða þeirra hverju sinni ræðst svolítið af því hvort menn eru samhuga og á sömu blaðsíðu eða ekki.  Það er klárlega veikleiki hjá HK að breiddin í leikmannahópnum er ekkert sérlega mikil, liðið má hvorki við skakkaföllum né því að lykilmenn detti niður í meðalmennsku.  Þegar HK-ingar ganga á öllum eru þeir hins vegar til alls líklegir.


Snorri á góðri stundu!

Aðrar fréttir