Sögur af vestfirskum handknattleik | Tóti Dengsa

Á sunnudaginn mætir Hörður frá Ísafirði í fyrsta sinn í Kaplakrika í efstu deild. Að því tilefni heyrði Ingimar Bjarni, fréttaritari handknattleiksdeildar FH,  í nokkrum FH-ingum sem eiga (mismiklar) tengingar við Ísafjörð og spjallaði við þá um liðið og fjörðinn.

Þórarinn „Tóta Dengsa“ Þórarinsson þekkja allir fastagestir í Kaplakrika.  Hann hóf ferilinn með Keflavík og spilaði einnig með ÍH. Árið 1995 var hann fenginn af vinum sínum í Keflavík í einn lokaleik þó skórnir væru þá komnir á hilluna. Sá leikur var gegn BÍ á Ísafirði og átti að verða auðveld ferð, flug vestur á laugardegi og heim daginn eftir. Það gekk ekki alveg eins og ætlað var:

Ég var plataður, segir Tóti.

Keflavík náðu ekki í lið eins og gengur oft í þessum neðri deildum. Ég var ekki búinn að spila handbolta í eitt og hálft ár en þeir sögðu að við færum á laugardegi og kæmum heim á sunnudeginum.

Tóti Dengsa í sínu náttúrulega umhverfi – á klukkunni í Krikanum / Mynd: Jói Long

Ég þurfti að mæta í vinnu á mánudeginum og svo var mín fyrrverandi kasólétt. En þetta átti að vera ódýr ferð, liðið myndi borga fyrir flug og gistingu og við áttum að borða á veitingastað.

Svo á sunnudeginum kom í ljós að það yrði ekki flogið á sunnudeginum, og ekki var hægt að fljúga á mánudeginum. Ég kom heim á þriðjudegi. Fólkið heima var ekki sátt. Þetta endaði á því að kosta mig því ég þurfti að sjá um útgjöld þessa tvo auka daga.

Hvað voruð þið að gera þarna í þrjá daga?

Við lágum bara á hótelinu og horfðum á vidjó og fannst það bara fínt. Við rétt gátum labbað í mat.

En hvernig gekk leikurinn?

Hann var ágætur. Ég kíkti á HSÍ.is, töpuðum 36-34, og misstum mann út af með rautt spjald eftir 15 mínútur. Við fórum bara akkúrat 7, þess vegna fór ég með, þannig við endum á að spila einum færri restina af leiknum. Og svo þegar það voru fimm mínútur eftir eða eitthvað þá misstum annan út af með þrjár brottvísanir og spiluðum tveimur færri síðustu fimm.

Ég setti þrjú mörk, og ef ég þekki mig rétt voru þetta undirhandaskot í hornið fjær á 100 km hraða af miðjum vellinum. Við réðum ekkert við spilandi þjálfara BÍ, Jakob Jónasson, KA maður. Hann setti held ég 17 eða 18 mörk.

Jakob Jónsson tók við sem spilandi þjálfari BÍ fyrir tímabilið

Segja má að ýmislegt hafi breyst í mótahaldi frá 1995.

Þetta var síðasti leikurinn hjá Keflavík. Þeir urðu að fara til að klára tímabilið. Þetta ár var þetta búið 15. febrúar og þá tók við 6 liða úrslitakeppni. Keflavík fóru ekki í hana. Byrjað 30. ágúst, búið 25. febrúar.

Þetta var held ég 11 liða deild, tvöföld umferð og sex lið héldu áfram. Hinir spiluðu ekkert meira, mótið var bara búið í febrúar.

Það var örlítið meira undir hjá BÍ í leiknum, en leikmenn liðsins höfðu heitið því að krúnuraka sig ef leikurinn skyldi tapast.

Eitthvað við það að bæta?

Ég vil bara hvetja fólk til að mæta og sjá Hörð, það eru tveir leikmenn í Herði sem hafa æft með yngri flokkum FH. Jón Ómar og Daníel. Þeir voru hérna í þriðja flokki og Jón spilaði með U-liðinu.

Við þökkum Tóta fyrir að hafa gefið sér tíma í þetta og tökum undir lokaorðin. FH og Hörður mætast á sunnudaginn í Kaplakrika klukkan 17!  Mætum og styðjum! Áfram FH!

Aðrar fréttir