Sögur af vestfirskum handknattleik | Vigdís Pála, fyrri hluti

Í tilefni fyrsta leiks FH og Harðar í efstu deild í handbolta settumst við niður með Vigdísi Pálu Halldórsdóttur, formanni handknattleiksdeildar Harðar, og ræddum við hana um félagið, handboltaheiminn á Vestfjörðum og ferðalag Harðar frá bumbubolta og upp í efstu deild. Er þetta fyrri hluti viðtals af tveimur.

Mig langar að byrja á spyrja – hvenær byrjaði þetta félag?

Handbolti hérna á Ísafirði var endurvakinn aftur. Það var handbolti hérna þegar félagið var stofnað. Það er langt síðan. Ég var að rita upp söguna nýlega.  Svona sirka 2010. Þá var þetta bara til gamans.

Hvernig byrjaði þetta?

Þetta byrjaði á… Ég var einmitt að tala við konu um daginn og hún sagði mér að það hefðu flutt hingað strákar í bæinn sem höfðu verið að æfa handbolta í Reykjavík og þeim langaði að starta starfi hérna fyrir vestan, og þeir gerðu það.

Þetta voru nú unglingsstrákar. Ætlaði einmitt að hitta þessa konu aftur og fá að skrifa niður hvernig þetta var allt. Eins og ég sagði við hana þá hafði ég ekkert heyrt um þetta og maður veit að það vantar rosa mörg ár inn í söguna hjá okkur.

Við erum að reyna að koma heimasíðu í loftið. Það er öll sagan um fótboltann vel skráð en það rosa lítið skráð um handboltann og mig langar að ná handboltasögunni svolítið betur fram. Og hvaða deildum var spilað í og hvaða ár.

Handbolti hefur verið stundaður af og til á Ísafirði. Árið 1976 kom Agnes Bragadóttir liði ÍBÍ í umspil um sæti í 2. deild.

Ef þú horfir aðeins lengra fram í tímann, segjum kannski tvö ár eða jafnvel fimm ár. Á hvaða vegferð eruð þið að reyna fara með félagið?

Okkur langar mikið að vera með kvennadeild. Það hefur verið mikil umræða um það. En því miður höfum við ekki verið að ná í nógu margar stelpur sem hafa áhuga.

Það sem við erum að reyna að horfa á er aðeins meira langtímamarkmið en það. Við erum að reyna að byggja upp yngri kvennaflokka. Ekki reyna að fá þessar eldri stelpur núna heldur að reyna að fá yngri stelpur til að byrja að æfa handbolta. Ég held að það sé númer eitt tvö og þrjú að ná þeim inn.

Ástæðan fyrir því að við erum að þessu er náttúrulega sú, að við erum að reyna að byggja upp fyrir þessa yngri flokka sem við erum með núna. Þeir eru rosalega efnilegir og flottir strákarnir okkar hjá Herði, og draumurinn er sá að þegar þeir eru komnir í meistaraflokk þá sé meistaraflokkur til að taka við þeim. Það er það sem við erum að horfa á. Að þessir strákar þurfi ekki að flytja suður til þess að spila handbolta. Sinna áhugamálinu sínu.

Þannig að þið eruð kannski ekki að horfa í það að vera í einhverri ákveðinni deild, meira að félagið sé það öflugt að það sé keðja frá yngstu flokkum og í efsta flokk.

Já, það er draumurinn, alla vega minn draumur. Að þessir strákar, til dæmis fjórði flokkurinn núna, að það sé eitthvað til að taka við þeim. Fyrir nokkrum árum þá var það bara ekki.

Hvenær kemur þú inn í batteríið?

Árið 2015-16 flytur Óli Björn vestur og hann var mikið í handbolta fyrir sunnan, og ég byrja að mæta mikið á leiki með honum og eitthvað. Þá var þetta algjör bumbubolti. Við gerum mikið grín að því að þegar hann flutti vestur þyngdist hann um tuttugu kíló því það var bara ein æfing í viku. Bara eitthvað voða rólegt. Síðan þá er búin að vera bullandi uppbygging.

Og svo fór maður að mæta meira og meira þannig að annað hvort varð ég að verða pirruð út í handboltann eða taka þátt í honum. Það var ekkert annað í boði og bara smá saman þróaðist þetta.

Svo endaði ég sem formaður. Ég tók ekki við sem formaður fyrr en fyrir einu og hálfu ári síðan.

Var eitthvað augnablik innan félagsins þar sem þið fattið; “Heyrðu við erum full fær um að fara upp?”

Ég veit ekki hverju Carlos myndi svara, en ég bjóst ekki við þessu strax. Ég mundi eftir tímanum þar sem við vorum að tapa utandeildarleikjum og maður var aldrei öruggur. Núna um áramótin (2021-22) er ákveðið að keyra þetta allt á fullt. Okkur gekk náttúrulega mjög vel í fyrra og sáum fram á að þetta yrði stærra. Og þetta er bara að ganga eins og smurt kefli. Það var seinasta vor sem maður áttaði sig á að það væri bara góður möguleiki á að við værum að fara upp.

En mér fannst erfitt að skipuleggja seinasta leikinn, ég var alltaf ,,hvað ef þetta gerist ekki, hvað ef þetta gerist ekki“, en samt var maður alltaf að vonast til þess að þetta myndi gerast. Maður alveg svitnaði við tilhugsunina um hvað það væru margir leiki í viðbót.

Hvernig var tilfinningin þegar þið siglduð þessu í höfn?

Rosaleg. Þetta var svo gaman og svo… það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Þetta var svo mikill sigur. Að takast þetta, svona litlu félagi út á landi. Við vorum náttúrulega bara með troðfullt hús og konfettísprengjur og allt í gangi.

Þetta hlýtur að hafa verið eitt af stærri andartökum, eða bara stærsta andartakið í sögu félagsins?

Þetta var það alveg tvímælalaust, það er einmitt það sem við töluðum um. Þetta var í fyrsta skiptið sem við vorum að fara að keppa í efstu deild.

Seinni hluti viðtals við Vigdísi Pálu verður birtur á FH.is innan skamms. Þar ræðir hún hvernig er að vera í Olísdeildinni og hvernig erlendum leikmönnum gengur að aðlagast lífinu á Ísafirði.

Aðrar fréttir