Sögur af vestfirskum handknattleik | Vigdís Pála, seinni hluti

Í tilefni fyrsta leiks FH og Harðar í efstu deild í handbolta settumst við niður með Vigdísi Pálu Halldórsdóttur, formanni handknattleiksdeildar Harðar, og ræddum við hana um félagið, handboltaheiminn á Vestfjörðum og ferðalag Harðar frá bumbubolta og upp í efstu deild. Er þetta seinni hluti viðtals af tveimur.

Nú eruð þið í Olís deildinni og það er náttúrulega allt annað batterí. Frá þínu sjónarhorni, hverjar eru stærstu áskorarnir sem þið eruð að glíma við?

Það er strangari umgjörð og meira af reglum sem þarf að fylgja. Ég reyndar rosalega ánægð, við erum að fá eftirlitsdómara vestur, eitthvað sem við sáum aldrei í fyrra. En stærsta áskorunin er náttúrulega sú, að þegar við komum í efstu deild þá vilja félögin mikið fljúga vestur. Og það er að gera okkur mjög erfitt fyrir. Flugið til Ísafjarðar er mjög óstöðugt og erfitt, sérstaklega á veturna. Og þetta verður mjög erfitt ef liðin ætla að taka upp á þessu að vera alltaf að fljúga. Það þýðir bara frestanir.

Maður sér náttúrulega að það er auðveldara fyrir lið í efstu deild að fljúga heldur en hin og það verður mikil breyting, og ég er búin að vera að ræða það við HSÍ að þetta gangi eiginlega ekki upp ef við ætlum að taka veturinn. Við erum reyndar búin að vera heppinn með veðrið en maður þekkir hvernig þetta verður hérna.

Varðandi þessi ferðalög, það er þessi brandari um að það sé styttra til Reykjavíkur en frá Reykjavík. Þetta er náttúrulega rosalegt ferðalag sem þið þurfið að taka fyrir hvern einasta útileik. Venjast leikmennirnir þessu og kunna á þetta, eða hefur þetta áhrif í hverjum einasta leik?

Þetta hefur alltaf áhrif, tala nú ekki um þegar verið er að keyra í slæmum færðum. Fyrir suma, komandi frá löndum þar sem er enginn snjór, þá getur maður ímyndað sér að þeir stressist vel upp þegar það er hálka. Það verður gaman að sjá hvernig þetta verður í vetur. En ég held að þetta hafi alltaf áhrif. Við reynum alltaf að ferðast degi fyrir leik upp á þetta að gera.

Sigurreifir Harðverjar, sigurvegarar í Grill 66 deild karla 2022 / Mynd: Hörður

Af því að þú minnist á það, þið eruð með leikmenn víða að. Hvernig eru þeir að plumma sig, óveðrin hafa kannski ekki skollið á mikið í vetur. Hvernig er stemningin?

Þeir hafa ekkert upplifað íslenskan vetur. Það er ekki ennþá kominn snjór! Eða það kom smá um daginn, örstutt. Þeir eru alveg að dýrka þetta. Þeir sitja í pottinum á kvöldin og horfa á norðurljósin. Þetta er náttúrulega bara draumur fyrir þá, sérstaklega þá sem eru að koma frá Suður-Ameríku og hafa aldrei séð snjó, aldrei séð norðurljós. Þeim finnst þetta bara sturlað. Það er alveg æðislegt að fylgjast með Instagrömmunum þeirra og að sjá þeirra viðbrögð við þessu

Þeir standa úti og alveg stjarfir. Það er náttúrulega alveg geggjað. En þeir koma ekkert allir vel búnir fyrir íslenskan vetur, þeir kannski koma bara með hettupeysu. Það þarf að huga vel að þeim.

Segjum að pappírsvinnan sé búin, leikheimild komin, viðkomandi lendir á flugvellinum eða keyrir vestur. Eruð þið með einhvern verkferil til að koma honum inn í samfélagið, hjálpa honum að aðlagast?

Strákarnir hafa verið mjög duglegir að hjálpa hvorum öðrum. Ef það kemur einhver nýr þá taka þeir á móti honum og kynna hann fyrir öllu. Svo hef ég sjálf verið mikið að sjá um þessa stráka. Það búa fimm leikmenn heima hjá mér. Þannig að maður er alltaf með á púlsinum hvað er í gangi.

Þetta er bara rosalega gaman og mér finnst þeir æðislegir, frábært að hafa þá heima. En þetta eru viðbrigði fyrir þá, sumir þessara stráka hafa aldrei búið nema heima hjá mömmu. Maður sér það alveg. Maður þarf aðeins að pikka í þá. En þetta er rosalega skemmtilegt, minnir mann pínu á að hafa skiptinema heima hjá sér.

Þetta hljómar allavega eins og líflegt heimili.

Þetta er mjög líflegt heimili. Og einn strákurinn á kött. Þetta er orðinn algjör dýragarður. En þetta gengur allt vel upp og þeir eru mjög flottir. Þeir eru mjög duglegir að hjálpa hvorum öðrum og þegar þeir hafa verið að koma vestur þá er rútína sem er hjá þeim.

Þeir hittast alltaf í hádegismat í menntaskólanum hérna. Fá svo með sér nestisbox fyrir kvöldið og svo eru æfingar og annað, þá fara sumir í vinnu. Þeir detta strax inn í þessa rútínu.

Sem skiptir rosalegu máli uppá að forðast heimþrá og allt slíkt.

Já, og svo sér maður að þeir eru misduglegir að kynnast öðrum utan handboltadeildarinnar. Þetta er náttúrulega rosa tilbreyting, komandi kannski úr stórborg og að flytja í 3000 manna bæjarfélag. Það sem þeim kannski bregður við er að þeir mega lítið gera og þá er allur bærinn búinn að frétta það.

Litla samfélagið, það þekkja allir alla?

Já, og ég er spurð, var þessi þarna að gera þetta. Maður veit þetta allt strax. Það kemur þeim alltaf smá á óvart hvað allt fréttist út um allt. Svo held ég að þeir séu líka alltaf mjög hissa þegar þeir sjá fyrsta heimaleikinn. Það virðist ekki skipta máli hvort við séum að vinna eða tapa, það er bara alltaf fullt hús. Sem er æðislegt.

Carlos Martin Santos þjálfari nýliða Harðar á Ísafirði. Mynd: Hörður

Hvernig kemur Carlos inn í myndina?

Hvernig kemur Carlos inn í myndina? Okkur vantaði þjálfara. Ég veit ekki hvernig Bragi fann Carlos en ég hef heyrt Carlos lýsa þessu atvinnuviðtali sem hann fór í. Þá var Carlos tilbúinn við tölvuna að fara í atvinnuviðtal og búinn að fara í skyrtu og setja uppi bindi, voðalega fínn. Svo hringir hann og þá svarar Bragi ber á ofan úti að slá garðinn. „Já já, ætlarðu ekki að koma á Ísafjörð að þjálfa, þetta er voðalega flottur bær!“ En Carlos var tilbúinn í eitthvað mjög fínt viðtal. En þetta endaði þannig að hann kom til okkar. Þetta hefur eitthvað virkað.

Þetta hefur verið gott menningarsjokk?

Alveg klárlega þannig. En hann er rosalega flottur í samfélaginu okkar og við vitum öll að það er Carlos sem á stóran hlut í þessari uppbyggingu sem hefur orðið hérna. Hann er svo flottur, hvort sem það er með meistaraflokki eða með yngri krökkunum. Þótt hann viðurkenni það ekki er hann farinn að tala ansi mikla íslensku. Maður heyrir það best á æfingunum hjá yngri flokkunum, þá talar hann alveg reiprennandi íslensku.

Þá er bara lokaspurningin, hvernig fer þetta á sunnudaginn?

Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer. Ég er að vona að við komum með einn óvæntan sigur, það væri mjög gaman. Það hafa margir verið að fylgja liðinu til Reykjavíkur, þannig að það hafa verið einhverjir stuðningsmenn sem hafa verið að koma á alla leiki. Gaman að hafa stuðning bæjarins með okkur í þessu.

Við FH-ingar þökkum Vigdísi Pálu kærlega fyrir spjallið, og hlökkum til að fá stuðningsmenn Harðar í heimsókn núna á sunnudaginn, 6. nóvember kl. 17:00! Tökum vel á móti þeim og styðjum okkar lið vel úr stúkunni. ÁFRAM FH!

Aðrar fréttir