Stelpudagurinn í Kaplakrika

Stelpudagurinn í Kaplakrika

Síðasta laugardag, þann 1. september, fór fram sérstakur stelpudagur í fótboltanum hjá FH. Þar stóðu þjálfarar yngstu flokkanna fyrir opinni æfingu fyrir 6., 7. og 8. flokk kvenna og stelpurnar buðu vinkonum sínum með til að prófa. Óhætt er að segja að tiltækið hafi gengið vel en rúmlega 160 stelpur sprikluðu í Risanum og tóku þátt í skemmtilegum æfingum. Góðir gestir létu sjá sig en Solla stirða leit við og stýrði nokkrum góðum æfingum auk þess að Jón Jónsson, tónlistar- og knattspyrnumaður, mætti með gítarinn og tók nokkur lög. Einnig gáfu leikmenn meistaraflokka FH hjá körlum og konum góð ráð og stelpurnar reyndu að skora hjá Söndru Sigurðardóttur, landsliðsmarkverði kvenna sem og Ionu Sjöfn, markverði meistaraflokks FH. 

Að fótboltanum loknum var boðið upp á pylsur og svaladrykki og fóru knattspyrnukonurnar ungu sáttar heim. Mikil gróska hefur verið hjá FH-stelpum undanfarið, aldrei verið eins mikill fjöldi við æfingar í yngstu flokkunum og verður spennandi að fylgjast með þessum stelpum í framtíðinni.

Aðrar fréttir