Stjörnuleikur stelpnanna í 16 marka sigri

Stelpurnar okkar luku handboltaárinu 2019 í gærkvöldi, og gerðu það með hvelli! Frestuðum leik gegn Stjörnunni U, sem óvænt fór fram í Krikanum í stað Mýrinnar, lauk með 16 marka sigri. Lokatölur urðu 33-17, FH í vil.

Það hversu vel stelpurnar mættu til leiks eftir hálfleik skóp þennan sigur. Munurinn á liðunum var aðeins 3 mörk í hálfleik, og Stjarnan U hefur sýnt í undanförnum umferðum að þar er hörkulið á ferð. Stórsigur gegn Fjölni, jafntefli gegn ÍR, naumt tap gegn Selfossi – að leggja þetta lið að velli er meira en að segja það.

En það gerðu stelpurnar, sannfærandi. Þær slógu tóninn strax um leið og leikurinn var flautaður aftur á eftir hlé. Þriggja marka forysta var orðin 7 mörk þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum, og ekki var slegið slöku við eftir það.

Umsókn þinni um að drífa á markið hefur verið hafnað. Vinsamlegast reyndu aftur síðar. / Mynd: Brynja T.

Lykillinn að sigrinum var frábær varnarleikur og markvarsla. Þú tapar varla nokkrum leik, þar sem þú færð á þig 17 mörk. Samanlagt vörðu markverðir okkar, Dröfn Haraldsdóttir og Ástríður Þóra Viðarsdóttir, 20 skot. Ekki amalegt það. Í vörninni fyrir framan þær var síðan Britney Cots í hvílíkum ham, þar sem hún blokkaði 13 skot Stjörnukvenna. Við það bætti Fanney Þóra Þórsdóttir 3 blokkum, sumsé 16 blokk alls. Skyldi engan undra, þótt ansi mörg væru skotin farin að fljúga hátt yfir markið þegar leið á. Engin var undankomuleiðin önnur en sú.

Fanney Þóra átti einnig prýðilegan leik sóknarlega, en hún endaði markahæst okkar kvenna með 8 mörk í 11 skotum. Annars skiptist markaskorið bróðurlega niður á liðið allt. Ragnheiður Tómasdóttir og Aníta Theodórsdóttir skoruðu 5 mörk hvor, Britney bætti við 4 mörkum sem og Sylvía Björt Blöndal. Frábær liðsframmistaða hjá frábæru liði.

Ragnheiður hefur leikið vel í vetur, og svo eftir hefur verið tekið! Í næstu viku bíða hennar afreksæfingar hjá HSÍ. / Mynd: Brynja T.

Nú er komið að verðskulduðu jólafríi hjá stelpunum, og það er margt sem gleður. 10 leikir í röð án taps í deild hafa skilað okkur í 2. sæti deildarinnar, og erum við nú sem fyrr að narta í hæla toppliðs Fram U, sem unnið hefur alla sína leiki. Mikill stígandi hefur verið í spilamennsku stelpnanna okkar undanfarin misseri, sem er enn betra. Það vekur upp tilhlökkun fyrir fyrsta leik eftir hlé, þar sem þessi tvö lið mætast einmitt.

Við getum einnig verið stolt og glöð með þær fregnir sem okkur bárust í dag þess efnis, að Ragnheiður okkar hefði verið valin í afrekshóp HSÍ af Arnari Péturssyni, landsliðsþjálfara. Það er mikil viðurkenning til Ragnheiðar, og til marks um það hve vel hún hefur leikið á þessari leiktíð. Maður uppsker eins og maður sáir.

Það var glatt á hjalla eftir leik gærdagsins!

Síðast en ekki síst gleður það, hversu góða liðsheild FH-liðið virðist hafa að geyma um þessar mundir. Það smitast inn á völlinn. Sést í öllu spili, á allri baráttu, og að lokum sést það á stigatöflunni. Það er gaman að fylgja eftir liði, sem hefur gaman af því sem það gerir. Það gerir það að verkum, að maður bíður í ofvæni eftir næsta leik. Safamýrin, 11. janúar, á nýju handboltaári. Takið daginn frá.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 8, Aníta Theodórsdóttir 5, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Britney Cots 4, Sylvía Björt Blöndal 4, Arndís Sara Þórsdóttir 2, Diljá Sigurðardóttir 2, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 1, Embla Jónsdóttir 1, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 17, Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 3.

Aðrar fréttir