Stórbrotinn seinni hálfleikur skilaði stórsigri stelpnanna okkar

Stórkostlegur seinni hálfleikur skilaði stelpunum okkar stórsigri á liði Fram U í Kaplakrika í gærkvöldi. Með sigrinum fetuðu þær sig nær toppbaráttunni, og lögðu grunninn að góðu skriði.

Leikurinn byrjaði hægt. Liðunum gekk erfiðlega að skora til að byrja með, en FH-liðið komst þó í 2-1 og virtist ætla að taka frumkvæðið. Þá komu skyndilega fjögur mörk Fram-kvenna í einni beit og staðan orðin 2-5 – ekki alveg í takt við þá byrjun sem við hefðum helst getað hugsað okkur.

Embla var öflug í gærkvöldi, með 5 mörk skoruð og fjölmargar stoðsendingar / Mynd: Brynja T.

Eftir gott leikhlé Rolands Eradze vöknuðu stelpurnar svo um munaði. Þær jöfnuðu metin og komust að endingu yfir, og þeirri forystu héldu stelpurnar út fyrri hálfleikinn. Fóru þær inn í leikhlé með tveggja marka forskot á Fram-liðið, staðan 12-10 fyrir FH.

Í síðari hálfleik sýndu stelpurnar okkar síðan allar sínar bestu hliðar. Vörnin gekk afar vel, í kjölfarið fengum við meira af hraðaupphlaupsmörkum og þá var einstaklega gaman að horfa á uppstilltan sóknarleik FH-liðsins. Flæðið var svo sannarlega til staðar. FH-stelpur hreinlega kafsigldu góðu liði Framara, og að lokum var munurinn á liðunum orðinn 11 mörk. Lokatölur 30-19 fyrir FH – afar verðskuldað í ljósi þeirra yfirburða sem stelpurnar sýndu eftir hálfleik.

Aníta fór á kostum á línunni og gaf engan afslátt á hinum enda vallarins / Mynd: Brynja T.

Aníta Theodórsdóttir fór á kostum á línunni í leik gærkvöldsins, en stelpurnar fundu hana afar vel og þegar boltinn berst á línuna til hennar er ekki spurt að leikslokum. Garðbæingurinn knái skoraði 7 mörk líkt og Sylvía Björt Blöndal, sem dældi að venju út mörkum í öllum regnbogans litum. Sú er sleggja.

Embla Jónsdóttir stýrði leiknum með festu að venju, en sýndi einnig mikið áræði í gegnumbrotum og skoraði fyrir vikið 5 mörk. Frábær leikur hjá Emblu, sem fékk hæstu einkunn allra á vellinum skv. HB Statz-tölfræðikerfinu.

Freydís Jara gladdi augað með fallegum sendingum í sínum fyrsta leik fyrir FH / Mynd: Brynja T.

Freydís Jara Þórsdóttir og Emilía Ósk Steinarsdóttir fengu eldskírn sína með FH-liðinu í gær, en þær gengu til liðs við okkur nú í janúar. Freydís Jara stimplaði sig inn með látum, skoraði eitt mark og gaf þónokkrar stoðsendingar – sýndi þar af sér sendingagetu sem ekki er á allra færi. Að minnsta kosti tvær línusendingar sem hún gerði í gær voru algjört augnakonfekt. Emilía Ósk fékk skemmri tíma á vellinum að þessu sinni, en mun án nokkurs vafa sýna hvað hún getur þegar á líður. Ljóst er, að í þeim tvemur fáum við góða viðbót.

Allt í allt frábær leikur hjá FH-liðinu – þær létu ekki erfiða byrjun þvælast um of fyrir sér, fundu taktinn á ný og rúlluðu yfir andstæðinginn að lokum. Vel gert, stelpur!

Næsti leikur stelpnanna er í Dalhúsum á fimmtudag, en þá sækja þær lið Fjölnis heim. Meira um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Aníta Theodórsdóttir 7, Sylvía Björt Blöndal 7, Embla Jónsdóttir 5, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 3, Diljá Sigurðardóttir 2, Fanney Þóra Þórsdóttir 2, Andrea Valdimarsdóttir 1, Britney Cots 1, Freydís Jara Þórsdóttir 1, Ragnheiður Tómasdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 7, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 4.

Aðrar fréttir