Stórleikur FH og Stjörnunnar á morgun

Stórleikur FH og Stjörnunnar á morgun

Óðum styttist í stórleik FH og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla en hann mun hefjast kl. 19.15 á morgun, sunnudag, á Samsung-vellinum í Garðabæ. Til mikils er að vinna fyrir bæði lið, Stjarnan er í harðri baráttu um Evrópusæti og FH-liðið á hvorki meira né minna möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri.

Óhætt er að segja að leikir þessara nágrannafélaga hafi verið fjörugir síðustu ár. Fyrri leikurinn í Kaplakrika í sumar endaði með 2-2 jafntefli þar sem hinn marksækni bakvörður, Guðjón Árni Antoníusson gerði bæði mörk FH-inga. Þá hefur mikið verið skorað á teppinu í Garðabæ í síðustu viðureignum félaganna. Í fyrra sigruðu Stjörnumenn 4-0 á heimavelli sínum, en FH vann 1-4 bæði 2010 og 2009. 

Leikmannahópur FH hefur undirbúið sig vel síðustu daga fyrir lokaátökin í mótinu. Allir eru klárir að undanskildum Atla Viðari Björnssyni sem enn er að jafna sig á meiðslum. Ólafur Páll Snorrason hefur æft af kappi undanfarið eftir meiðslatíð og ætti að vera klár fyrir lokasprett mótsins.

Ljóst er að FH-ingar munu fjölmenna í Garðabæinn á sunnudag til að styðja við bakið á frábæru FH-liði sem hefur skemmt okkur í sumar með góðum leik. FH.is hvetur alla til að mæta í hvítu og hjálpa liðinu yfir síðasta hjallann í mótinu.

ÁFRAM FH!

Aðrar fréttir