Stórsigur á Val var afmælisgjöfin

Stórsigur á Val var afmælisgjöfin

Í kvöld var leikinn leikur FH og Vals í N1-deild karla. Þetta var fyrsti heimaleikur FH-inga á tímabilinu og jafnframt partur af miklu afmælishófi FH-inga nú um helgina, en eins og allir vita er okkar ástkæra félag orðið 80 ára, takk fyrir takk! Ljóst er að liðsmenn FH-inga voru ákveðnir í að færa félaginu og stuðningsmönnum þess veglega afmælisgjöf í tilefni dagsins og úr varð frábær sigur.

Í fyrri hálfleik gat allt gerst. Liðin voru nokkurn veginn jöfn frá fyrstu mínútu, þótt FH-ingar hafi alltaf haft frumkvæðið að nokkru leyti. Lítið var um varnir og liðin sóttu stíft. Að sama skapi urðu mönnum oft á mistök í sókninni, en það kom þó ekki að sök. FH-ingar náðu á endanum að keyra fram úr Valsmönnum og höfðu forystu í hálfleik, 20-16. Þess má geta að hornamaður okkar FH-inga, Bjarni Fritzson, átti hreint út sagt stórkostlegan fyrri hálfleik og skoraði heil 8 mörk.

Í seinni hálfleik var aldrei vafi hvernig myndi fara. FH-ingar spiluðu frábæra vörn og að sama skapi datt markvörður okkar FH-inga, Húsvíkingurinn Pálmar Pétursson, í gang. Þessi fyrrum leikmaður Vals átti gífurlega góðan leik og varði alls 21 skot! Það má segja að þessi frábæri markvörður hafi svo sannarlega unnið sig upp í áliti stuðningsmanna FH-inga með þessari frammistöðu og fékk hann að lokum gott lófaklapp er honum var skipt út af undir lok leiksins. Í kjölfari hinna flottu varnartilburða FH-inga náðu þeir að keyra upp skyndisóknir og bar það árangur. Þeir slökuðu þó á í lok leiksins og náðu Valsarar að minnka muninn niður í 7 mörk, en á tímabili leit út fyrir að FH-liðið næði 10 marka forystu.

Bjarni Fritzson átti flottan leik fyrir FH í kvöld og var atkvæðamikill að vanda. Hann skoraði 12 mörk, þar af 8 mörk í fyrri hálfleik, eins og fram hefur komið. Ólafur Guðmundsson skoraði 7 mörk, Jón Heiðar Gunnarsson skoraði 4 mörk og Benedikt Kristinsson skoraði 3. Pálmar Pétursson átti frábæran leik í markinu eins og áður sagði, varði 21 skot, og Daníel Andrésson varði 2 skot.

Stuðningur:
1,500 manns lögðu leið sína í Krikann í kvöld til að horfa á leikinn. Það verður að teljast býsna gott í samanburði við áhorfendatölur annara liða í deildinni. Stemningin var frábær, hinir fjölmörgu áhorfendur létu vel í sér heyra og studdu fast við bakið á liðinu allan leikinn. Nú er um að gera að halda áfram að mæta og láta í sér heyra. Það er okkar að gera Krikann að gryfju í vetur.

Tölfræði:
FH 33 – 26 Valur

Mörk FH: Bjarni Fritzson 12/2, Ólafur Guðmundsson 7, Jón Heiðar Gunnarsson 4, Benedikt Kristinsson 3, Ólafur Gústafsson 3, Örn Ingi Bjarkason 2, Ásbjörn Friðriksson 1, Sigurgeir Árni Ægisson 1.

<s

Aðrar fréttir