Stórsigur FH-inga á Val

Stórsigur FH-inga á Val

Það má segja að FH-ingar hafi sýnt sínar bestu hliðar í kvöld er þeir mættu liði Vals í Krikanum. Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik, enda Valsmenn með vel mannað lið sem getur á góðum degi gert hvaða liði deildarinnar grikk.


Lærisveinar Sr. Friðriks mættu í Krikann í kvöld

FH-ingar voru greinilega vel meðvitaðir um þá staðreynd. Þeir mættu öflugir til leiks, sérstaklega varnarlega séð, og eftir 10 mínútna upphafskafla þar sem liðin voru stál í stál bættu FH-ingar vel í – á þriggja mínútna kafla skoruðu FH-ingar 4 mörk gegn einu marki Valsmanna og breyttu stöðunni úr 5-3 í 9-4. Þar með var tónninn gefinn.

Það sem eftir lifði síðari hálfleik voru FH-ingar með örugg tök á leiknum, voru lengst af 4-5 marka forskot og þegar liðin héldu inn í hálfleik var staðan 17-13, FH í vil. Vel verðskulduð forysta sem grundvallaðist einna helst af frábærum varnarleik og öguðum sóknarleik, en FH-ingar völdu færi sín vel og fóru fáar sóknir til spillis. Það var því full ástæða til bjartsýni er liðin héldu til búningsklefa.


Halldór Guðjónsson skoraði 5 mörk í kvöld – flottur leikur hjá drengnum

Í fyrri hálfleik voru þeir Ásbjörn og Óli Guðmunds markahæstir í liði FH-inga með 5 mörk hvor. Þá varði Pálmar 7 skot í markinu.

Í seinni hálfleik mættu Valsmenn ákveðnir til leiks og voru greinilega ekki hættir. Það var heppilegt, því FH-ingar voru langt frá því að vera hættir.

Fyrstu mínútur síðari hálfleiks voru jafnar og skemmtilegar. Valsmenn fóru ekki mikið í gegnum varnarmúr FH-inga, en náðu oft á síðustu stundu að skora með langskotum. FH-ingar svöruðu ávallt um leið og misstu forystuna aldrei niður fyrir þrjú mörk. Staðan þegar korter var liðið af seinni hálfleik var 24-19, FH-ingum í vil.


Ólafur Guðmundsson skoraði 8 mörk. Hann hefur byrjað árið frábærlega!

En þá skyldu leiðir. FH-ingar léku vægast sagt frábærlega síðasta korterið, vörnin var frábær og Daníel Andrésson varði sem berserkur í markinu. Í kjölfarið komu hraðaupphlaupsmörk í bland við agaðar sóknir líkt og höfðu tíðkast í leiknum fram að þessu. 5 marka forskot varð að 6 mörkum, 6 marka forskot varð að 7 marka forskoti allt þar til FH-ingar náðu loks upp í 10 marka forskot þegar mínúta var eftir af leiknum. Þannig lauk leiknum – FH-ingar unnu verðskuldaðan og öruggan sigur á sæmilegu Valsliði, 34-24.

Ekki var veikan blett að finna á liði FH-inga í kvöld. Sem heild léku strákarnir frábærlega, varnarleikurinn var hreyfanlegur og fastur fyrir og það lagði einna helst grunninn að góðum sigri í kvöld. Sóknarleikurinn var svosem ekkert slor, en varnarleikur FH-liðsins stóð klárlega upp úr. Þá stóðu markverðir liðsins, Pálmar og Danni, vel fyrir sínu.

Það leikur ekki nokkur vafi á því að FH-liðið er óárennilegt í viðlíka formi og það var í kvöld. Vonast undirritaður til að strákarnir haldi nú uppteknum hætti, sér í lagi þar sem næstu tveir leikir verða án alls vafa gríðarlega erfiðir – tveir útileikir gegn Akureyri með nokkurra daga millibili.

Ási hefur sömuleiðis byrjað árið frábærlega – hann skoraði 9 mörk í kvöld

Ásbjörn Friðriksson var markahæstur FH-inga í kvöld með 9 mörk, þar af eitt úr vítakasti. Ásbjörn er í fantaformi þessa dagana og það verður gaman að fylgjast með honum það sem eftir lifir tímabils. Að sama skapi var Ólafur Guðmundsson gríðarlega öflugur, en hann skoraði 8 mörk – þar af 5 í f

Aðrar fréttir