Strákarnir áttu Stjörnuleik í Garðabæ

Sigurganga FH-liðsins hélt áfram í gærkvöldi þegar strákarnir unnu þægilegan 10 marka sigur á Stjörnunni, 25-35, í 19. umferð Olísdeildarinnar.

Liðið leit vel út strax frá upphafi leiks. Frá fyrstu mínútu spiluðu FH-ingar líkt og þeir sem valdið höfðu, og var það í raun einungis góð frammistaða Ólafs Gústafssonar í liði Stjörnunnar sem kom í veg fyrir að FH-ingar slitu sig frá Garðbæingum fyrr en raun bar vitni. Sóknarleikur strákanna gekk snurðulaust fyrir sig, og áttu hvorki varnarmenn né markvörður Stjörnumanna nokkur svör við honum. Þegar vörn okkar fann svo lausn við Ólafi, var ekki spurning um hvort FH-ingar færu inn í hálfleik með forystu, heldur hve stór hún yrði. Hún reyndist vera 5 mörk; hálfleiksstaðan var 12-17, FH í vil.

Frábær byrjun á síðari hálfleik gerði síðan endanlega út um leikinn. Okkar menn voru greinilega ekki á þeim buxunum að hleypa heimamönnum aftur inn í leikinn, heldur skoruðu þeir fjögur mörk í röð og var staðan þá orðin 12-21, FH í vil. Ekki nema 5 mínútur liðnar af síðari hálfleik, og FH-liðið í ansi þægilegum málum.

Strákarnir slökuðu ekki á heldur héldu þeir áfram að spila góðan og skemmtilegan handbolta. Uppstilltur sóknarleikur einkenndist af skynsemi og varnarleikurinn var öflugur sem fyrr. Mest náði FH-liðið 12 marka forskoti, en Stjörnumenn löguðu stöðuna aðeins fyrir leikslok og var munurinn að lokum 10 mörk á liðunum. Lokatölur 25-35, og öruggur útivallasigur staðreynd.

Jóhann Birgir átti toppleik í Mýrinni.

Jóhann Birgir átti toppleik í Mýrinni.

Allt í allt átti FH-liðið frábæran leik í gærkvöldi. Varnarleikurinn hélt áfram að vera góður þar sem Jóhann Karl, Ágúst og Ísak í síðari hálfleik stýrðu málum með festu. Ágúst Elí varði vel í markinu og þá fengum við mikið af hraðaupphlaupsmörkum í kjölfarið. Þessi góða vörn og markvarsla er veisla fyrir Óðinn Þór, sem ávallt er fyrstur fram. Alls skoraði hann 10 mörk í leiknum. Jóhann Birgir átti ef til vill sinn besta leik á tímabilinu, en hann fór á kostum fyrir utan og skoraði einnig 10 mörk í 13 skotum. Þar fyrir utan fengum við framlag víða í sókninni, sem er gríðarlega jákvætt merki fyrir liðið.

Strákarnir gátu varla fengið mikið betra veganesti en þennan sigur inn í komandi æfingaviku, og inn í komandi bikarúrslitahelgi. Frábær liðsframmistaða, líkt og við höfum séð endurtekið á síðustu vikum. Nái liðið okkar að beisla þennan meðbyr og taka hann með sér inn í Laugardalshöll, þá er varla ástæða til annars en bjartsýni.

Byrjað er að selja miða á leik FH og Vals í undanúrslitum bikarsins, sem fer fram næstkomandi föstudag (24. febrúar) kl. 17:15. Þarf að segja meira? Við viljum sjá fagurhvíta stúku í Laugardalshöllinni næstu helgi, og við viljum sjá bikarinn í Krikanum! Vertu með, kæri FH-ingur.

Við erum FH!

Mörk FH: Óðinn Þór Ríkharðsson 10, Jóhann Birgir Ingvarsson 10, Arnar Freyr Ársælsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Einar Rafn Eiðsson 3/2, Ágúst Birgisson 2, Jóhann Karl Reynisson 2, Halldór Ingi Jónasson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 14.

 

Aðrar fréttir