Strákarnir halda áfram þar sem frá var horfið | Á toppnum eftir baráttusigur gegn Aftureldingu

Tveir leikir, tveir sigrar. Toppsætið með 19 mörk í plús. Það er varla hægt að biðja um meira.

Strákarnir okkar fara vel af stað í Olísdeildinni þetta árið, en í gærkvöldi lögðu þeir sterkt lið Aftureldingar að velli í hörkuleik. FH-liðið var með frumkvæðið lengst af í leiknum, og þrátt fyrir að sýna góða baráttu þá gátu Mosfellingar ekki sótt 2 stig í greipar þess.

Arnar Freyr skoraði 4 mikilvæg mörk í leiknum, þar af nokkur úr fráköstum. Seigla! / Mynd: Jói Long

Leikurinn var hraður og skemmtilegur frá fyrsta flauti. Jafnt var á meira og minna öllum tölum í fyrri hálfleik, og voru það FH-ingar sem að alla jafna voru fyrri til að skora. Lítið var um varnir á meðan að sóknarleikur liðanna fékk að fljóta vel. Það var hin besta skemmtun fyrir áhorfendur uppi á pöllum, enda bæði lið vel skipuð og fær um að bjóða upp á góð tilþrif.

Bæði lið gátu farið tiltölulega sátt inn í leikhlé með jafna stöðu í háfleik, 16-16. Hvorugur þjálfaranna hefur þó verið ýkja sáttur með þann varnarleik sem þeirra lið buðu upp á, og þá litlu hjálp sem markverðirnir fengu fyrir vikið.

Gestirnir úr Mosfellsbæ voru fyrri til að skora í síðari hálfleik og höfðu frumkvæðið fyrstu 5 mínúturnar eða svo. Eftir það voru FH-ingar sterkari, og eftir síðustu forystu Mosfellinga (á 34. mínútu, í stöðunni 18-19) skoruðu þeir 4 mörk í röð og náðu upp þriggja marka forskoti í fyrsta sinn í leiknum, 22-19.

Mosfellingar áttu fá svör við Fógetanum / Mynd: Jói Long

Maður hafði alltaf á tilfinningunni eftir það, að FH-liðið myndi klára þennan leik. Strákarnir virkuðu aldrei líklegir til þess að missa hann að fullu úr höndunum, og þrátt fyrir að liðsmenn UMFA hefðu barist vel fyrir sínu þá var sigur FH-liðsins alltaf líklegri útkoman. FH-ingar gerðu færri mistök í sókninni, náðu fleiri stoppum á hinum enda vallarins og sigldu því tveimur stigum í höfn.

Afar sterkur sigur að vinna, enda eitt besta lið deildarinnar í heimsókn. Að því sögðu, og nú geri ég mér grein fyrir því að þetta er ákveðin frekja: við áttum ákveðna þætti inni, sem að öllu jöfnu eru til staðar. Við viljum enn fleiri stopp og fleiri varin skot. Svona er maður orðinn góðu vanur! Það er ekkert nema jákvætt, strákarnir ætla sér stóra hluti og til þess að þeir hlutir megi verða að veruleika þá þurfa kröfurnar að vera miklar.

Ásbjörn og Einar Rafn, frekar sáttir í leikslok / Mynd: Jói Long

Markaskorið dreifðist vel á FH-liðið í gærkvöldi, og voru þeir Ásbjörn og Einar Rafn markahæstir að þessu sinni með 7 mörk hvor. Ísak fann sig vel í sókninni með 5 góð mörk, og þá skoruðu Arnar Freyr, Óðinn Þór og Ágúst Birgis 4 mörk hver. Jóhann Karl skoraði síðan 1 mark.

Markverðirnir vörðu 12 bolta samanlagt, Birkir Fannar með 7 varin og Ágúst Elí 5. Vörðu þeir sitt hvort vítið.

Næsta verkefni er eins stórt og þau gerast, en þá halda okkar menn á Ásvelli og spila gegn rauðklæddum grönnum okkar. Þar er um sannkallaðan toppslag að ræða, en Haukarnir hafa líkt og okkar menn unnið báða leiki sína. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 7/1, Einar Rafn Eiðsson 7/2, Ísak Rafnsson 5, Arnar Freyr Ársælsson 4, Ágúst Birgisson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Jóhann Karl Reynisson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 7/1, Ágúst Elí Björgvinsson 5/1.

Aðrar fréttir