Strákarnir í 6. flokki karla í handbolta að standa sig vel

Strákarnir í 6. flokki karla í handbolta að standa sig vel

Um síðustu helgi tók 6. flokkur karla þátt í sínu þriðja móti í vetur og geta strákarnir heldur betur verið ánægðir með helgina:

  • 23 sigrar í 28 leikjum
  • 30 stig af 38 mögulegum í heildarstigakeppni Íslandsmóts
  • 42 leikmenn spiluðu í 4 liðum
  • Öll liðin spila í fyrstu deild á næsta móti
    … og síðast en ekki síst …
  • Allir leikmenn lögðu sig fram, tóku framförum og stóðu sig virkilega vel.

Ég stóðst ekki mátið og hripaði nokkur orð um afrek helgarinnar.

C2 byrjuðu sitt mót mjög vel þar sem með sterkri vörn og skynsömum sóknarleik unnu þeir fyrstu þrjá leiki sína í riðlinum. Þeir lentu svo í vandræðum með HK Lind, þá sérstaklega einn leikmann þeirra, og töpuðu naumlega eftir hörkuleik. Í milliriðli spiluðu þeir þrjá leiki, unnu einn en töpuðu tveimur og spiluðu því um 5. sætið í mótinu á móti HK Digranesi. Þann leik unnu þeir örugglega og mega svo sannarlega vera ánægðir með árangurinn inni á vellinum. Sumir voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og lærðu ýmislegt nýtt sem á vonandi eftir að nýtast í framtíðinni. Nú er bara að mæta vel á æfingar, leggja okkur fram og temja okkur smám saman rétta siði, og ég er viss um að við náum því í sameiningu.

C1 byrjaði mótið líka mjög vel. Markinu var haldið hreinu í fyrstu tveimur leikjum í riðlinum og næstu tveir unnust einnig næsta örugglega. Í milliriðlinum hélt sigurgangan áfram og þar með sæti í úrslitaleiknum tryggt. Þar mætti liðið Selfossi, sömu andstæðingum og í úrslitaleik fyrsta mótsins, og voru leikmenn staðráðnir í að láta tapið síðan þá ekki endurtaka sig. Selfyssingarnir, með nokkra stóra og stæðilega leikmenn í broddi fylkingar, reyndust hins vegar of sterkir og FH-strákarnir töpuðu leiknum. Engu að síður stóð þessi hópur sig sérstaklega vel í mótinu öllu, spiluðu mjög flottan handbolta og var gaman að fylgjast með leikgleðinni og stemningunni í hópnum, sérstaklega þegar vel gekk. Hins vegar má ekki gleyma þessum þáttum leiksins þegar mótlætið eykst, og það gerðist því miður í úrslitaleiknum. En það er bara einn af þessum hlutum sem maður lærir jafnt og þétt, og allir í þessum hópi mega vera ánægðir með árangurinn og helgina.

B-liðið fór mjög svipaða leið í gegnum mótið og C1. Þeir unnu riðilinn sinn nokkuð auðveldlega, þrátt fyrir að vera soldið ryðgaðir í fyrsta leik. Í milliriðli unnu þeir líka Gróttu 2 og Hauka, en lentu samt í smá vandræðum með langskot Hauka. Í úrslitaleiknum mættu þeir Gróttu 1, sem var einmitt líka úrslitaleikurinn í fyrsta mótinu þar sem FH hafði betur. En í þetta skiptið mættu Gróttumenn feykilega sterkir til leiks og með sterkri vörn og góðu línuspili í sókn tryggðu þeir sér nauman sigur. FH-menn voru að sjálfsögðu vonsviknir eftir leikinn þar sem stefnt var að sigri eins og í öllum öðrum leikjum, en það vantaði einhvern herslumun upp á spilamennskuna. Hugarfarið var samt virkilega gott hjá liðinu öllu og þrátt fyrir vonbrigðin mega strákarnir vera stoltir af afrekum sínum um helgina. Nú er bara að læra af reynslunni og koma enn sterkari til leiks á næsta móti.

Leikmenn A-liðsins lentu í dálitlum vandræðum í síðasta móti og ætluðu svo sannarlega að sýna hvað í þeim býr á þessu móti. Þeir fóru með fullt hús stiga í milliriðil, þrátt fyrir að hafa lent í kröppum dansi á móti Gróttu í riðlinum, og mættu þar Fram og Fylki, liðum sem bæði hafa náð góðum árangri á mótum vetrarins. Með miklum sigurvilja og einbeitingu tókst strákunum að landa sigri gegn þessum sterku liðum og koma sér þannig í úrslitaleik gegn Fjölni, liði sem vann fyrsta mót vetrarins og hafði unnið FH tvisvar í vetur. Í þetta skiptið náðu okkar strákar þó að sýna sitt rétta andlit og unnu verðskuldaðan sigur sem var fagnað ógurlega í leikslok. Frábær endir á mjög góðri helgi hjá þessum hópi, þar sem hugarfar var til fyrirmyndar og handboltinn (oftast) í hæsta gæðaflokki.

<br

Aðrar fréttir