Strákarnir okkar komnir í 1-0 eftir framlengdan spennuleik

Deildarmeistarar FH eru komnir í 1-0 í rimmu sinni gegn Gróttu í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins, en rimman hófst í Kaplakrika í gærkvöldi. Leikurinn var hörkuspennandi og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit, en að lokum fór svo að okkar menn héldu ró sinni og kláruðu verkefnið.

Strákarnir gátu fagnað í gærkvöldi, en framundan er hörkuleikur úti á Nesi / Mynd: Jói Long

Strákarnir gátu fagnað í gærkvöldi, en framundan er hörkuleikur úti á Nesi / Mynd: Jói Long

Það voru gestirnir af Seltjarnarnesi sem voru með frumkvæðið til að byrja með. Lengst af leiddu þeir með 2-3 mörkum, og munaði þar helst um að sóknarleikur okkar manna gekk ekki sem skyldi. Varnarleikur Gróttu var að sama skapi afar góður, og náðu gestirnir að stoppa það flæði sem einkennt hefur sóknarleik FH-liðsins í deildinni.

Frábær innkoma Ísaks Rafnssonar kom í veg fyrir að Gróttumenn færu með meira en eins marks forystu í hálfleikinn, en staðan að loknum fyrri hálfleik var 12-13, Gróttu í vil. Ísak var hreint út sagt á eldi síðari hluta fyrri hálfleiksins, en hann skoraði öll mörkin sín 6 á þessum kafla.

FH-ingar urðu fyrir áfalli á 10. mínútu þegar línumaðurinn Ágúst Birgisson varð fyrir meiðslum á hendi, sem urðu þess valdandi að hann gat ekki haldið áfram leik. Ágúst, sem hefur verið einn besti leikmaður Olísdeildarinnar í vetur, verður skv. nýjustu fregnum líklega ekki með í öðrum leik liðanna, sem fram fer á Seltjarnarnesi annað kvöld. Blessunarlega er góð breidd í liði FH – Jóhann Karl Reynisson lék það sem eftir lifði leiks á línunni og gerði það vel, en hann skoraði 4 mörk alls, og þá lék Ísak við hlið hans í miðju varnarinnar. Vonandi nær Ágúst sér þó fljótlega góðum aftur, enda mikilvægur okkar liði.

Birkir Fannar átti hörkuinnkomu í markið í seinni hálfleik.

Birkir Fannar átti hörkuinnkomu í markið í seinni hálfleik.

Strákarnir byrjuðu síðari hálfleikinn mun betur en þann fyrri. Þrjú mörk í röð urðu þess valdandi, að tveggja marka forysta náðist innan við þremur mínútum eftir að leikurinn var flautaður aftur á. Gróttumenn voru þó áfram vel stemmdir, og náðu að jafna á nýjan leik í 16-16. Nokkrar sterkar vörslur frá Birki Fannari Bragasyni í marki FH, og góð mörk hinum megin á vellinum, stuðluðu að því að FH-ingar náðu þriggja marka forskoti þegar korter var eftir. Staðan 19-16, og útlitið orðið ansi gott.

Áfram voru okkar menn með forystuna, og þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 21-19 FH í vil. Tvö mörk Gróttumanna í röð sáu hins vegar til þess að þegar tvær mínútur voru eftir var jafnt á tölum, 21-21. Þorgeir Björnsson fór inn í næstu sókn á eftir og kláraði snyrtilega, en hornamaður Seltirninga svaraði í sömu mynt strax á eftir. Hvorugt liðið náði svo að knýja fram sigur áður en venjulegum leiktíma lauk, og því þurfti að framlengja.

Einar Rafn var svellkaldur á vítalínunni í lok framlengingar / Mynd: Jói Long

Einar Rafn var svellkaldur á vítalínunni í lok framlengingar / Mynd: Jói Long

Spennandi framlengingu, þar sem að liðin skiptust á að hafa frumkvæðið, lauk svo að endingu með því að Gísli Þorgeir Kristjánsson fiskaði víti þegar innan við mínúta var eftir. Einar Rafn Eiðsson steig upp og kláraði af mikilli yfirvegun framhjá Lárusi Gunnarssyni, og þar við sat. Gróttumenn brenndu af næsta skoti sínu, og þar með lauk leiknum með sigri FH-inga. Lokatölur 27-26 deildarmeisturunum í vil, og 1-0 forysta FH-inga því staðreynd í þessu einvígi.

Einar Rafn Eiðsson og Ísak Rafnsson fóru fyrir FH-ingum í markaskori að þessu sinni, með 6 mörk hvor. Ásbjörn Friðriksson skoraði 5, og þá skoraði Jóhann Karl Reynisson 4 af línunni líkt og greint var frá áður. Birkir Fannar Bragason átti stórgóða innkomu í mark FH-inga í síðari hálfleik, en hann varði 13 skot. Ágúst Elí Björgvinsson var með 6 skot varin, þar af eitt víti.

Okkar menn sýndu mikinn karakter með því að loka þessum leik. Strákarnir hafa oft spilað betur, og vita það best sjálfir. Þeir spiluðu leikinn lengi vel á þeim forsendum sem lið Gróttu setti, en unnu engu að síður og það verður að teljast vera styrkleikamerki. Vonandi læra strákarnir af þessum leik, og mæta tvíefldir í baráttuna annað kvöld. Betur má ef duga skal.

Nú veist þú hvar þú verður annað kvöld, kæri FH-ingur!

Nú veist þú hvar þú verður annað kvöld, kæri FH-ingur!

Næsti leikur liðanna er, líkt og áður var greint frá, annað kvöld. Hann fer fram í íþróttahúsi þeirra Seltirninga, og hefst hann kl. 19:30. Við hvetjum að sjálfsögðu sem flesta FH-inga til að renna vestur í bæ, enda sæti í undanúrslitunum í húfi. Húsið er tiltölulega lítið, og því er um að gera að mæta tímanlega. Fjölmennum og styðjum strákana okkar fram til sigurs!

Við erum FH!

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 6/2, Ísak Rafnsson 6, Ásbjörn Friðriksson 5, Jóhann Karl Reynisson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Birkir Fannar Bragason 1, Þorgeir Björnsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 13, Ágúst Elí Björgvinsson 6/1.

 

Aðrar fréttir