Strákarnir okkar máttu sætta sig við tap í stórskemmtilegum grannaslag

Svona fór um sjóferð þá. Í æsispennandi Hafnarfjarðarslag, annari viðureign liðanna á þessu tímabili, fóru nágrannar okkar frá Ásvöllum með sigur af hólmi. 29-30 voru lokatölur að þessu sinni, í leik þar sem okkar menn voru með frumkvæðið lengi vel í leiknum.

Óðinn snýr boltanum snyrtilega fram hjá Morkunas í marki Hauka.

Óðinn snýr boltanum snyrtilega fram hjá Morkunas í marki Hauka.

Strákarnir okkar mættu svo sannarlega tilbúnir til leiks og sýndu það með því að skora fyrstu þrjú mörk leiksins. Varnarleikurinn var frábær og Ágúst Elí varði líkt og berserkur á bak við hana. Mest náðum við fjögurra marka forskoti í hálfleiknum, bæði 11-7 og 12-8, en Haukarnir löguðu stöðuna fyrir hálfleik og munaði aðeins tveimur mörkum á liðunum þegar þau gengu til búningsklefa. Staðan 15-13 fyrir FH eftir prýðilegan fyrri hálfleik.

FH-liðið hélt áfram að spila vel fyrstu mínútur síðari hálfleiksins og var með yfirhöndina, líkt og í fyrri hálfleiknum. En á 38. mínútu kom að ákveðnum vendipunkti í leiknum. Þá fékk Adam Haukur Baumruk, skytta Haukanna, að líta rauða spjaldið fyrir að sparka til Einar Rafns. Vissulega hefði maður haldið að það yrði mikill missir fyrir Haukana að missa Adam út af, en það virtist hafa jákvæð áhrif á þá rauðklæddu. Fljótlega eftir brottreksturinn náðu Haukarnir sinni fyrstu forystu í leiknum og 10 mínútum síðar var munurinn orðinn fjögur mörk. Tólf mínútur eftir og staðan orðin erfið fyrir okkar menn.

Strákarnir voru hins vegar hvergi nærri hættir og svöruðu fyrir sig með því að skora næstu þrjú mörk leiksins. Þannig minnkuðu þeir muninn niður í eitt mark, og enn 10 mínútur til leiksloka. Leikhlé Haukanna í kjölfarið hleypti miklum krafti í gestina, sem aftur voru komnir með fjögurra marka forskot örfáum mínútum síðar. Hreint rosalegar sveiflur!

Fjögurra marka munur, og 7 mínútur til leiksloka. Erfið staða? Vissulega, en þetta FH-lið er til alls líklegt þessa dagana. 4 mínútum síðar fór Óðinn Þór inn úr horninu og sneri hann framhjá Morkunas í marki Hauka, og þar með voru FH-ingar aftur komnir yfir í þessum ótrúlega leik! Húsið trylltist á þessum tímapunkti. Allir stóðu upp, og stemningin var hreint frábær síðustu mínúturnar – líkt og var reyndar allan leikinn. Því miður reyndust gestirnir sterkari í þessum aðstæðum, og leiknum lauk á endanum með sigri þeirra.

Einar Rafn Eiðsson átti virkilega góðan leik í gærkvöldi, sérstaklega í fyrri hálfleik, en hann skoraði 9 mörk og var markahæstur á vellinum. Ásbjörn Friðriksson átti einnig flottan leik með 6 mörk. Ágúst Elí Björgvinsson varði frábærlega í fyrri hálfleik, hann varði alls 13 skot, og þá átti Birkir Fannar Bragason flotta innkomu í síðari hálfleik með 6 skot varin (55%).

Leikurinn í gærkvöldi var sá síðasti fyrir áramót, og er því tilvalið að horfa aðeins á stöðu FH-liðsins fyrir þá löngu pásu sem framundan er. Ég ætla að segja eins og er, að mér þykja vera afskaplega jákvæð teikn á lofti og full ástæða til bjartsýni. Í gær mættu strákarnir okkar Haukaliði, sem úrbeinað hefur hvern andstæðinginn á fætur öðrum eftir að við mættumst síðast. Fá lið hafa getað staðist þeim snúning, þangað til í gær. Haukarnir mættu jafningjum sínum, og hefði leikurinn geta fallið hvoru megin sem var. Við erum komnir á þann stað og erum með það gott lið, svo einfalt er það.

3. sætið er okkar í þessari löngu pásu, og það eru spennandi tímar framundan. Við tökum þátt í deildabikarnum milli jóla og nýárs, þar sem fjögur bestu lið landsins etja kappi hverju sinni. Við eigum fulltrúa í 28 manna landsliðshópi Íslands fyrir HM í Frakklandi, Óðinn Þór Ríkharðsson, sem verðskuldar það sæti svo sannarlega eftir frábærar frammistöður í hvítu treyjunni. Eftir þessa löngu pásu gerum við svo atlögu á nýjan leik.

Við erum FH!

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 9/2, Ásbjörn Friðriksson 6/2, Arnar Freyr Ársælsson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Jóhann Birgir Ingvarsson 3, Ágúst Birgisson 2, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 13, Birkir Fannar Bragason 6.

– Árni Freyr

 

Aðrar fréttir