Strákarnir ósigraðir á toppi deildarinnar eftir afgerandi sigur í Víkinni

FH-ingar halda áfram uppteknum hætti sem heitasta lið Olísdeildarinnar, en í kvöld voru það Víkingar úr Fossvogi sem þurftu að lúta í gólf fyrir svarthvítu hetjunum okkar. Lokatölur 22-36 fyrir FH, sem eru því enn ósigraðir í Olísdeildinni.

Lið FH gerði eiginlega út um leikinn á fyrstu 10 mínútunum. Frábær varnarleikur og markvarsla auk góðs sóknarleiks á hinum endanum urðu til þess að fyrstu 7 mörk leikins voru okkar FH-inga. Sannkölluð óskabyrjun. Strákarnir héldu góðum dampi fram að hálfleik, og þegar liðin gengu til búningsherbergja var munurinn 9 mörk. Staðan í hálfleik var 9-18, FH í vil. Almennilegt.

FH-ingar héldu fínum dampi í síðari hálfleik, en leikurinn bar þess þó merki að úrslitin voru löngu ráðin. Breiddina nýttum við vel, og fengu allir leikmenn liðsins að spreyta sig. Sérlega mikilvægt í ljósi þess, að liðið er á leið til St. Pétursborgar um helgina, þar sem að það á góðan séns á að slá út sterkt lið heimamanna í EHF-bikarnum.

Einar Rafn átti afar góðan leik í kvöld / Mynd: Jói Long

Lokatölur voru 22-36, FH í vil. Flottur sigur í Víkinni, og eru okkar menn því ósigraðir á toppi deildarinnar eftir 5 umferðir.

Ágúst Elí Björgvinsson átti góðan dag í markinu í kvöld, en hann varði 14 skot og var sérlega afgerandi í fyrri hálfleik. Hann drap gjörsamlega niður í liði Víkinga með frammistöðu sinni fyrsta korterið. Einar Rafn Eiðsson var flottur í sóknarleiknum með 8 mörk, og þá dreifðist markaskorið almennt afar vel. Gott var að sjá Jóhann Birgi Ingvarsson koma til baka eftir sín meiðsli, en hann skoraði 3 mörk og leit vel út í síðari hálfleiknum. Kraftmikill að vanda.

Eins og áður segir er næsta verkefni strákanna okkar ekki af verri endanum. Þeir freista þess þá að komast áfram í 3. umferð EHF-bikarsins, en til þess eru þeir í góðri stöðu eftir frábæra frammistöðu í heimaleiknum síðastliðinn laugardag. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 8/1, Ágúst Birgisson 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Jóhann Birgir Ingvarsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Þorgeir Björnsson 3, Ásbjörn Friðriksson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Ísak Rafnsson 2.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 14/1.

Aðrar fréttir