Stund milli stríða | Frábær sigur á Fylki gott veganesti fyrir verðugt verkefni

Það var ekki að spyrja að því! Stelpurnar okkar mættu liði Fylkis af fullri hörku, er liðin leiddu saman hesta sína í Krikanum á laugardag. Ekkert vanmat. Ekkert bull. Fyrir vikið skein gæðamunurinn í ljós. FH-liðið leiddi með 6 mörkum í hálfleik, 17-11, og vann að lokum 12 marka sigur. Lokatölur 31-19, FH í vil.

Markahæstar í liði FH að þessu sinni voru þær Ragnheiður Tómasdóttir og Emilía Ósk Steinarsdóttir með 7 mörk hvor, og þá gerði Britney Cots 6 mörk í skyttunni. Arndís Sara Þórsdóttir kom einnig sterk inn á línunni og skoraði 5 mörk.

Arndís Sara stóð sig vel á línunni gegn Fylki / Mynd: Brynja T.

Sigurinn þýðir það, að enn eru stelpurnar okkar í bílstjórasætinu þegar kemur að baráttunni um sæti í efstu deild á næstu leiktíð. Selfyssingar elta okkur þó enn á röndum, en þær lögðu ÍR að velli á laugardag og eru því áfram einu stigi á eftir FH-liðinu. Spennan á toppnum er rosaleg.

Eins þýðir sigurinn, að stelpurnar eru nú búnar að jafna sinn heildarstigafjölda frá því í fyrra, líkt og komið var inn á í upphitun fyrir leikinn á laugardag. Er það til marks um þann stíganda, sem sést hefur á FH-liðinu í vetur.

Mörk FH: Emilía Ósk Steinarsdóttir 7, Ragnheiður Tómasdóttir 7, Britney Cots 6, Arndís Sara Þórsdóttir 5, Andrea Valdimarsdóttir 2, Aníta Theodórsdóttir 2, Embla Jónsdóttir 2.

Það er ef til vill vel við hæfi, að á þessum tímapunkti bíði okkar próf sem einnig var lagt fyrir okkur síðasta vetur. 8-liða úrslit í bikar eru framundan á miðvikudag og, líkt og í fyrra, er Valur andstæðingurinn. Besta lið Íslands á síðustu leiktíð er á leið í Krikann.

Valskonur reyndust vera einu, jafnvel tveimur, númerum of stórar á síðustu leiktíð. Lokatölur í leiknum voru 12-35, Val í vil, sem komst þar með í Höllina hvar liðið landaði þeim stóra. Það var engin skömm að því að tapa gegn þessu liði. Það var engin skömm í því fólgin, að skora 12 mörk á lið Vals. ÍBV gerði slíkt hið sama í undanúrslitaleik liðanna í Höllinni. Þær voru einfaldlega þetta þéttar. Þetta sterkar. Þetta góðar.

Í leik liðanna á síðustu leiktíð lentu FH-ingar á vegg, sem steyptur var á Seltjarnarnesi og samanstóð af Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttir og Írisi Björk Símonardóttur. Anna Úrsúla leikur ekki lengur í miðjublokk varnar Vals, en Íris Björk er sem fyrr á milli stanganna – óumdeilanlega besti markvörður okkar Íslendinga undanfarin ár. Kannski frá upphafi?

Hin efnilega Emilía Ósk var í stóru hlutverki gegn Fylki á laugardag / Mynd: Brynja T.

Sóknarlega fengu Valskonur víða framlag, en það voru þær Eyjakonurnar Díana Dögg Magnúsdóttir og Sandra Erlingsdóttir sem voru atkvæðamestar með 5 mörk hvor. Þær tvær eru mikilvægustu leikmenn Vals í dag, ásamt Írisi Björk og sveitungi hennar af Nesinu, Lovísu Thompson. Ekki það, að það er Val-in kona í hverju rúmi á þeim bænum. Okkar bíður erfitt verkefni.

Þetta eru hins vegar nákvæmlega liðin sem við viljum mæta. Valur, Fram, Stjarnan, og svo framvegis. Liðin í Olísdeildinni. Við viljum mæla okkur upp við þau. Við viljum vera þeirra á meðal, ekki síðar en á næstu leiktíð. Á miðvikudag fáum við að sjá hvar við stöndum, til samanburðar við það hvaðan við komum og hvert við ætlum okkur að fara.

Fyrir tímabil og í vetrarpásunni höfum við gert einmitt það – mætt Olísdeildarliðum, þó vissulega hafi það ,,bara“ verið æfingaleikir. Meðal þeirra liða sem stelpurnar mættu var ÍBV, og það lið lögðu stelpurnar að velli í tvígang. Fullskipað lið ÍBV, og það sannfærandi. Eyjastelpur stríddu Valskonum verulega þegar liðin mættust um helgina á Hlíðarenda, en þar fóru meistararnir þreföldu með tveggja marka sigur af hólmi. Hver veit – gerast bikarævintýrin enn?

Hámörkum möguleikana á bikarævintýri stelpnanna okkar! Mætum og styðjum þær alla leið í baráttunni. Þær eiga það svo sannarlega skilið.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir