Stundin er komin

Stundin er komin

Því næst tók til máls Örn Magnússon formaður handknattleiksdeildar FH. Hann tilkynnti stráknunum það að það væri nánast frágengið að Einar Andri og Arnar Geirsson tækju við meistaraflokknum. Þar stæði til að byggja upp nýtt lið til framtíðar með efnivið úr yngri flokkunum. Þeirra stund væri komin!

Það verður að segja eins og er að FH er búið að fara fram og aftur blindgötuna hvað varðar meistaraflokk karla á síðustu 5-6 árum, jafnvel lengur. Forn frægð og hefð er yfirleitt eitthvað sem vinnur með liðum, en stundum getur hún orðið íþyngjandi. Áhersla á að verða bestir aftur strax, og tjaldað til einnar nætur í von um skjótan árangur. Þessi stefna hefur ekki skilað okkur neinu síðustu ár.

Það er því nokkur léttir að heyra orð Arnar um að nú skuli byggt upp. Ungum leikmönnum treyst og gefinn tími. Jafnframt að þeir þjálfarar sem hafa lagt mikið af mörkum í að fóstra þessa stráka sem nú eru að koma upp er falið að móta þennan efnivið. Einar Andri og Arnar hafa báðir brennandi áhuga og metnað fyrir hönd strákanna og félagsins og það verður spennandi að fylgjast með FH-liðinu á næstu árum.

Jafnframt bind ég vonir við að sá stóri hópur foreldra sem hefur fylgt strákunum í 3. og 4. flokki í mörg ár og stutt ómetanlega við bakið á þeim komi af fullum krafti til starfa fyrir deildina. Við þurfum á slíku fólki að halda.

Allt hefur sinn tíma segir í Biblíunni. Eins og Isac Newton fattaði þegar hann fékk eplið í hausinn forðum. Fullþroska ávöxturinn, mjöll af furugrein, lögmálið verður að uppfylla eins og Jesú sagði við Júdas samkvæmt Tómasarguðspjalli. Stundin er komin.

Ég sagði í hrifnæmni minni eftir sigur mfl. karla á HK fyrir mánuði eða svo að straumhvörf hefðu orðið og öll vötn féllu til Dýrafjarðar. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið óhappa því eins og þeir sem Gíslasögu hafa lesið var Vésteinn veginn er hann ákvað að halda förinni til Dýrarfjarðar áfram en FH tapaði tveimur næstu leikjum gegn Víkingi / Fjölni og Haukum og féllu um deild.

Hinsvegar, talandi um fljót, verð ég að segja eitt. Þegar ég var lítill vorum við fjölskyldan í sumarbústað í Varmahlíð í Skagafirði. Þar fórum við í frægan reiðtúr þar sem eiginlega allir duttu af baki nema pabbi en það er önnur saga. Þar veitti ég ánni Húseyjarkvísl athygli. Farvegur hennar liðaðist áfram gegnum dalinn í óteljandi essum. Ég var að spá af hverju hún rynni ekki beint áfram. Það var ekki fyrr en í vetur þegar ég var að kenna landafræði í Hvaló þar sem umfjöllunarefnið var Kína og Huang-He eða Gulá, hvernig áin hlykkjaðist áfram og breytti jafnvel um farveg vegna þess að það var svo lítill halli á landinu. Þá fattaði ég Húseyjarkvísl sem hafði verið eins og myndbreytt berg í höfðinu á mér öll þessi ár.

Það sem ég á við er að stundum þarf maður að taka eitt skref til baka áður en maður tekur stökkið fram. En vonandi uppskerum við eins og búið er að sá í yngriflokkunum undanfarin ár því eins og Helgi Björns sagði:

Hey, settu niður kartöflur
Hey, þær koma upp

Íslandsmeistarar 3. flokks FH    (Mynd: Karl Marinósson)

Aðrar fréttir