Styðjum okkar lið – Áfram FH

Nú er fótboltinn farinn að rúlla og spennandi tímabil framundan bæði hjá stelpunum okkar í Lengjudeildinni og strákunum í Bestudeildinni. Bæði liðin urðu Lengjubikarmeistarar nú í vor og margt jákvætt framundan.

Stelpurnar fara vel af stað með sigri á Haukum 4-0, liðið sterkt og stelpurnar að ná vel saman. Við ætlum okkur að komast upp í Bestudeild og við ætlum innan 3-5 ára að gera atlögu að efrihluta Bestudeildar kvenna og festa okkur þar. Við höfum metnað og við höfum markvisst unnið að því að bæta alla umgjörð og markvist stutt við stelpurnar okkar og það frábæra starf sem við höfum verið að vinna í yngri flokkum félagsins Sú fjárfesting er nú að skila sér.

Strákarnir okkar hafa átt erfiða fyrstu leiki á útivelli við Víkinga, sem tapaðist naumlega og á móti Blikum þar sem þeir voru ofjarlar okkar en svo unnum við góðan sigur á Frömmurum á heimavelli. Næsti leikur er erfiður leikur á móti Valsmönnum í Krikanum en þar þurfum við á stuðningi ykkar að halda. Við höfum orðið fyrir áföllum í byrjun tímabils þar sem þrír lykilmenn gátu ekki tekið þátt í leiknum á móti Blikum en við FH-ingar eflumst við slíkar raunir og nú hafa tveir komið til baka auk þess sem við höfum gert samning við tvo nýja leikmenn í þessari viku sem munu styrkja hópinn. FH ætlar sér nú sem áður að keppa um titla og ná árangri í Bestudeildinni og í Bikarkeppninni.

Það væri ekki rétt að segja að síðustu ár hafi verið auðveld hjá okkur í FH og höfum við tekist á við ýmis verkefni innan og utan vallar. Það sem skiptir aftur á móti mestu máli er að það er svo margt jákvætt sem við getum litið til. Yngri flokka starfið hefur gengið vel og fleiri ungir FH-ingar eru nú samningsbundnir í meistaraflokkum og afreksflokkum félagsins en nokkurntíma áður. Þessir ungu menn og konur eru að fá fleiri tækifæri en oftast áður og við erum að skila fleiri leikmönnum upp í liðin. Fleiri FH-ingar hafa verið seldir til erlendra liða og nokkuð ljóst að það mun halda áfram. Sú markvissa fjárfesting sem við sem félag höfum staðið að með auknu afreksstarfi og betri og markvissari þjálfun er að skila sér og verður grunnurinn að því að tryggja stöðu okkar sem lykilfélag í íslenskri knattspyrnu til framtíðar

Það er ekkert auðvelt að reka knattspyrnufélag eins og FH og þeir sem eru að sinna þeim störfum eru að mestu sjálfboðaliðar sem leggja ómælda vinnu, tíma og oft fjármuni til þess að ná árangri fyrir félagið sitt, FH. Þessu fólki eins og ykkur ber að þakka og án sjálfboðaliða og stuðningsmanna erum við ekki neitt. Þess vegna verðum við að standa saman, styðja hvort annað og standa þétt á bakvið stelpurnar og strákana okkar því þannig getum við lagt okkar að mörkum til þess að við náum markmiðum okkar í sumar. Þegar liðin mæta andstæðingum sínum á vellinum getum við stuðningsmenn oft riðið baggamuninn. Mætum því á völlinn í sumar, tökum þátt í starfinu, bjóðum fram starfskrafta okkar og kaupum Bakhjarlakort eða ársmiða til að styðja við bakið á félaginu okkar.

Mig langar líka að biðja ykkur stuðningmenn að sýna strákunum og stelpunum jákvæðan stuðning og hvetja þau á jákvæðan hátt. Jafnframt skulum við taka vel á móti gestum okkar og sýna þeim virðingu þegar þau koma til okkar í Krikann því þannig viljum við að komið sé fram við okkur og okkar keppnisfólk.

Fótboltinn fer vel á stað í sumar og er ég viss um að við eigum eftir að ná góðri uppskeru í sumar ef við stöndum saman og leggjumst á eitt við að styðja félagið okkar jafnvel þó stundum geti blásið á móti til skamms tíma. Líkt og sannir vinir þá stöndum við með okkar félagi í blíðu og stríðu. Þannig eru sannir félagsmenn og þannig erum við FH-ingar.

Áfram FH og sjáumst á vellinum í sumar

Valdimar Svavarsson
Formaður knattspyrnudeildar.

Aðrar fréttir