Sunnudagsstórsigur stelpnanna okkar gegn Víkingi

FH stelpur tóku á móti Víking í Kaplakrika í gærkvöldi. Lokatölur voru 35-23 FH stelpum í vil, en eftir 5 mínútna leik var í raun ekki spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Munurinn á liðunum var mikill, og í lok fyrri hálfleiks leiddu FH stelpur með 10 marka mun 18-8. FH stelpur spiluðu gríðarlega vel mest allan leikinn og fyrir utan nokkra tæknifeila og tapaða bolta, voru þær virkilega agaðar í varnarleiknum og nýttu færin sín prýðilega.

Sylvía Björt Blöndal var á blússandi siglingu í leiknum og skoraði 11 mörk úr 12 skotum, þrátt fyrir að vera tekin úr umferð góðan part af leiknum. Þegar Sylvía kemst í þetta form er næstum ógerlegt að stoppa hana og hún sýndi það svo sannarlega í kvöld með sinni frammistöðu. Auk Sylvíu stóðu uppúr þær Ragnheiður Tómasdóttir sem skoraði 7 mörk, þar af nokkur úr frábærlega útfærðum hraðaupphlaupum, og svo hin unga Emilía Ósk Steinarsdóttir sem skoraði einnig 7 mörk og sýndi hversu hættuleg hún getur verið með skotum sínum fyrir utan.

Fanney Þóra er komin í 100 leikja klúbbinn / Mynd: Brynja T.

Fanney Þóra Þórsdóttir, okkar eina sanna, spilaði sinn 100 leik fyrir FH. Hún spilaði allan leikinn og stóð sig með mikilli prýði. Ég get ómögulega sagt til um það hvort hún stóð sig betur í sókninni með sín 4 mörk og þó nokkur sköpuð færi, eða í vörninni þar sem hún stóð eins og klettur og leikmenn Víkings áttu í miklu basli með að komast framhjá henni. Það er erfitt að finna meiri FH-ing heldur en hana Fanneyju og þvílík ósköp sem hún er búin að gefa liðinu þessa 100 leiki sína. Hún er leiðtogi í orðsins fyllstu merkingu og fyrirmynd fyrir allar ungu stelpurnar sem eru að stíga inn í meistaraflokk. Til hamingju með áfangann, Fanney!

Það má taka fram að allir 3 markmenn hjá FH liðinu, Dröfn Haraldsdóttir, Hrafnhildur Anna og Ástríður Þóra, komu við sögu í leiknum og voru með samtals með 11 bolta varða sem er um 32% markvarsla.

Þegar á botninn er hvolft var þetta virkilega sterkur og sannfærandi sigur hjá FH-stelpunum sem gerðu virkilega vel á öllum sviðum leiksins. Þegar markvarsla, vörn og sókn gengur eins og í dag eru þær virklega beittar og geta staðið í nánast hvaða liði sem er. Að auki var vel mætt á pallanna í Kaplakrika í gærkvöldi og stemmingin góð, sem hjálpar svo sannarlega til.

Næsti leikur stelpnanna er fimmtudaginn 10.október, en þá heimsækja þær Fyki í Fylkishöllinni í Árbænum og hefst sá leikur kl. 19:00. Má búast við erfiðum leik á móti sterku liði Fylkis og hvetjum alla til að mæta og sýna stelpunum stuðning.

Við erum FH!
– Kristín Þóra

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 11, Ragnheiður Tómasdóttir 7, Emilía Ósk Steinarsdóttir 7, Fanney Þóra Þórsdóttir 4, Aníta Theodórsdóttir 2, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 2, Diljá Sigurðardóttir 2.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 5, Dröfn Haraldsdóttir 3, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3.

Aðrar fréttir