Súrt tap í síðasta leik stelpnanna fyrir jólafrí

Stelpurnar okkar máttu um helgina sætta sig við erfitt tap gegn toppliði ÍR í Kaplakrika. Leiknum lauk með 7 marka sigri Breiðhyltinga, sem með sigrinum bólstruðu enn frekar góða stöðu sína á toppi deildarinanr. Stelpurnar okkar, aftur á móti, sitja nú í 5. sæti Grill 66 deildarinnar – 7 stigum á eftir andstæðingi laugardagsins.

Diljá spilaði vel í leik laugardagsins, en hún skoraði 5 mörk úr 6 skotum og var markahæst ásamt Sylvíu / Mynd: Brynja T.

Fyrsta korter leiksins leit allt út fyrir að um jafnan og spennandi leik yrði að ræða. Liðin voru jöfn á flestum tölum, líkt og var raunin í bikarleik liðanna í Breiðholti tveimur vikum fyrr, og var það góðs viti. Fjölmennt var á pöllum Kaplakrika, sem var í takt við það sem hér var um að ræða – sannkallaðan stórleik í þessari deild.

Því miður var frammistaða stelpnanna okkar eftir þetta fyrsta korter ekki nægilega góð, til þess að halda mætti í besta lið deildarinnar til þessa. Eftir þessar jöfnu upphafsmínútur tók ÍR-liðið öll völd á vellinum og byggði hægt og bítandi upp forystu sína. Breiðhyltingar leiddu með 5 mörkum í hálfleik, 9-14, og stelpurnar okkar komust ekki nær þeim eftir það.

Á tímabili leiddu ÍR-stelpur með 10 marka mun í síðari hálfleik, áður en að rótering á liði gestanna hófst og sókn FH-liðsins gekk ögn betur fyrir sig. Að lokum var því munurinn á liðunum 7 mörk – lokatölur 20-27, ÍR í vil. Verðskuldaður sigur gestanna, sem eru því enn ósigraðir á toppi deildarinnar.

Það hallar vart á nokkurn þegar fullyrt er, að Ástríður Þóra hafi verið besti leikmaður vallarins. 22 varin skot! Frábær leikur hjá henni. / Mynd: Brynja T.

Það var fátt sem gekk sem skyldi hjá stelpunum okkar á laugardag. Sóknarleikurinn varð stirður, allt of mikið var um það að stelpurnar hentu boltanum frá sér og þá var varnarleikurinn ekki jafn góður og hann hefur oft verið í vetur. Það er synd, ekki síst vegna þess að Ástríður Þóra Viðarsdóttir fór á kostum í marki FH-liðsins. Hún varði 22 skot, og var án nokkurs vafa besti leikmaður FH-liðsins að þessu sinni – ef ekki besti leikmaður vallarins.

Diljá Sigurðardóttir var markahæst í liði FH að þessu sinni ásamt Sylvíu Björt Blöndal, en báðar skoruðu þær 5 mörk. Aníta Theodórsdóttir og Britney Cots bættu síðan við 3 mörkum hvor.

Fall er fararheill! Vonandi læra stelpurnar okkar af leik sem þessum og nýta sér hann á seinni hluta tímabilsins. Leikurinn var sá síðasti fyrir frí, en næsti leikur í deild fer ekki fram fyrr en 10. janúar næstkomandi, þegar stelpurnar mæta liði Aftureldingar í afar mikilvægum leik. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Diljá Sigurðardóttir 5, Sylvía Björt Blöndal 5, Aníta Theodórsdóttir 3, Britney Cots 3, Ragnheiður Tómasdóttir 2, Embla Jónsdóttir 1, Hildur Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 22.

Aðrar fréttir